Norrænn vinnumarkaður rannsakaður

20.11.14 | Fréttir
Efla á norrænt samstarf um málefni vinnumarkaðarins enn frekar. Það telja vinnumarkaðsráðherrar Norðurlanda og á fundi sínum í Kaupmannahöfn sl. fimmtudag ákváðu þeir að láta gera athugun á skipulagi norræns vinnumarkaðar.

– Norðurlönd eru ekki bara svæði innan þess vinnumarkaðar sem ESB- og EES-reglur ná til. Við höfum veitt almenningi í löndunum okkar miklu fleiri möguleika. Það nægir að líta til þeirra tugþúsunda Norðurlandabúa sem daglega sækja vinnu yfir landamæri á Norðurlöndum og tekst að skipuleggja daglegt líf sitt út frá því, segir Eygló Harðardóttir. Hún fer sem ráðherra með málefni vinnumarkaðarins á Íslandi og er auk þess formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um vinnumál árið 2014.

– Við vitum líka að við getum gert miklu meira. Ég vil að það verði eins einfalt að flytja milli Reykjavíkur og Stokkhólms eða Övertorneå eins og að flytja til nágrannabæjar í tíu mínútna fjarlægð. Þess vegna pöntum við rannsókn sem á að skila ýmsum áþreifanlegum tillögum sem ráðherranefndin getur tekið afstöðu til og forgangsraðað, segir Eygló Harðardóttir.

„Norræna líkanið undir þrýstingi“

Henrik Dam Kristensen, ráðherra vinnumarkaðsmála í Danmörku, sem tekur við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni um vinnumál árið 2015, segir mikilvægt að athugunin verði sett í víðara evrópskt samhengi.

– Norræna líkanið, meðal annars þríhliða viðræður, er undir þrýstingi vegna þess að það keppir við önnur líkön sem er að finna á svæðinu. Til þess að tryggja að þær tillögur sem koma fram verði framkvæmanlegar er nauðsynlegt að kanna ESB- og EES-svæðið samtímis, segir Henrik Dam Kristensen.

Vinnumarkaðsráðherrarnir segja að rannsóknin á skipulagi vinnumarkaðarins eigi að stuðla að auknu skuldbindandi samstarfi og eigi að beinast að því að kanna  

  • mögulegan ávinning af því að starfa saman á þessu sviði í málum sem snerta ESB/EES,
  • samstarf framvegis um önnur alþjóðamál, til dæmis á vettvangi OECD og ILO,
  • aukna áherslu á sameiginlegar norrænar aðgerðir sem tengjast markmiðum samstarfssviðsins og sem stuðla að aukinni atvinnuþátttöku og minna atvinnuleysi, samþættu atvinnulífi og góðu vinnuumhverfi, og
  • hlutverk þríhliða viðræðna á norrænum vettvangi.

Rannsóknin verður hin þriðja af þessu tagi á norrænum vettvangi. Fyrst kom svonefnd Stoltenberg-skýrsla um tækifæri í norrænu samstarfi í varnar- og öryggismálum (2009) sem Thorvald Stoltenberg, fyrrum varnarmála- og utanríkisráðherra Noregs, tók saman. Bo Könberg, fyrrum félagsmálaráðherra í Svíþjóð, tók saman Könberg-skýrsluna um norræn heilbrigðismál (2014).