Norrænt samstarf í 70 ár: Hornsteinninn í sameiginlegri framtíð okkar

18.06.24 | Fréttir
Arbeidsmarkedskonferanse i Malmö
Ljósmyndari
Andreas Omvik

Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, í pallborðsumræðum um samþættan norrænan vinnumarkað framtíðarinnar ásamt Anne Beathe Tvinnereim og Jessiku Roswall, samstarfsráðherrum Norðurlanda í Noregi og Svíþjóð.

Í ár fagnar hinn sameiginlegi norræni vinnumarkaður 70 ára afmæli. Þessi áfangi undirstrikar mikilvægi samvinnu og samþættingar á milli landa okkar. Á ráðstefnu sem haldin var af þessu tilefni komu saman aðilar frá öllum Norðurlöndum til þess að fagna hinum sögulega samningi og ræða framtíðaráskoranir.

Jessika Roswall, samstarfsráðherra Norðurlanda í Svíþjóð, og Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, fóru fögrum orðum um samninginn um sameiginlegan vinnumarkað og þýðingu hans þegar þær settu ráðstefnuna. Þær lögðu áherslu á mikilvægi frjálsrar farar á Norðurlöndum sem grundvallarstoðar í sameiginlegu velferðarlíkani okkar. 

Í sögulegu samhengi hefur það skipt miklu máli fyrir velferð norrænu landanna að hægt hefur verið að flytja á milli þeirra.

Karen Elleman, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

„Í sögulegu samhengi hefur það skipt miklu máli fyrir velferð norrænu landanna að hægt hefur verið að flytja á milli þeirra. Það er því alls ekki of djúpt í árinni tekið að segja að hinn sameiginlegi norræni vinnumarkaður sé enn í dag hornsteinn norræns samstarfs,“ sagði Ellemann.

Áskoranir dagsins, svo sem hækkandi meðalaldur og þörf á grænum umskiptum, kallar á áframhaldandi öflugt samstarf. Vinnumarkaðurinn gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að uppfylla Framtíðarsýn okkar 2030 um græn, samkeppnishæf og sjálfbær Norðurlönd. Því er mikilvægt að löndin beri saman bækur sínar um það hvað megi einfalda fyrir norrænan almenning. Sú vinna skiptir sköpum til að tryggja að norrænn vinnumarkaður ekki einungis lifi af, heldur sé einnig í stakk búinn að mæta áskorunum framtíðarinnar.

Þörf á áframhaldandi þróun

Í tilefni af 70 ára afmælinu gaf Norræna rannsóknastofnunin í  skipulags- og byggðamálum (Nordregio) út skýrslu þar sem bæði er litið um öxl og horft fram á veginn.

Á ráðstefnunni í Malmö var sjónum einnig beint að aðgerðum til þess að bæta og efla norrænt samstarf. Nýlegt dæmi um aðgerð sem einfaldar fólki að vinna þvert á landamæri er hinn nýi skattasamningur á milli Danmerkur og Svíþjóðar sem skrifað var undir fyrir stuttu. Ellemann var þakklát fyrir samninginn.

  „Þessi samningur felur ekki aðeins í sér efnahagslegan ávinning fyrir bæði löndin heldur kemur hann bæði atvinnurekendum og launþegum til góða,“ sagði Ellemann.

Á ráðstefnunni mátti finna mikla samstöðu um að sameiginlegra aðgerða sé þörf til þess að árangur náist. Lögð var áhersla á að það skipti sköpum að halda áfram að þróa og aðlaga hið norræna líkan til þess að takast á við nýjar kröfur og áskoranir. Norrænt samstarf á ekki bara að snúast um að viðhalda því sem áunnist hefur heldur einnig að skapa sjálfbæra og inngildandi framtíð.

Sameiginlegar aðgerðir

Norrænt samstarf um vinnumál þýðir að íbúar á Norðurlöndum eigi að geta gengið að því að ráðningarkjör og vinnuumhverfi sé nokkurn veginn sambærilegt í norrænu löndunum. Búið er í haginn fyrir hreyfanlegan norrænan vinnumarkað sem gerir það að verkum að einfaldara verður fyrir einstaklinga að fara á milli vinnustaða sem eru ekki í sama norræna landinu. Ungt fólk á í dag að geta í auknum mæli nýtt sér þau tækifæri sem í samþættum vinnumarkaði felast.

70 ára afmælisfögnuðurinn gengur ekki bara út á að fagna fortíðinni heldur felur hann í sér skuldbindingu um áframhaldandi samstarf og nýsköpun. 

Karen Elleman, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

 „70 ára afmælisfögnuðurinn gengur ekki bara út á að fagna fortíðinni heldur felur hann í sér skuldbindingu um áframhaldandi samstarf og nýsköpun. Framtíðarsýn Norðurlanda um að verða samþættasta og sjálfbærasta svæði heims fyrir árið 2030 krefst sameiginlegra aðgerða og vilja til þess að takast í sameiningu á við nýjar áskoranir. Á ráðstefnunni í Malmö kom glögglega fram að sá vilji er ríkur á svæðinu öllu,“ sagði Ellemann að lokum.

Tengiliður