Ný skýrsla: Taka þarf matarsóun fastari tökum eigi Norðurlöndum að takast að helminga hana fyrir 2030

27.09.24 | Fréttir
Matsvinnet ska halveras till 2030
Ljósmyndari
Livsmedelsverket
Matarsóun á Norðurlöndum dregst ekki saman á þeim hraða sem til þarf til að við náum því alþjóðlega markmiði að helminga matarsóun fyrir 2030. Í dag kemur út skýrsla sem inniheldur tillögur sem ætlað er að draga hraðar úr matarsóun. Lagðar eru til öflugri aðgerðir og aukið norrænt samstarf.

Nú þegar aðeins sex ár eru til ársins 2030 telja vísindamennirnir á bak við skýrsluna að valkvæðar aðgerðir dugi ekki lengur til. Grípa verður til öflugri pólitískra stýringa, annars mun matarsóun ekki dragast nógu hratt saman. Á meðal aðgerða sem lagðar eru til eru til dæmis takmarkanir á herferðum í verslunum, þróun og eftirlit með merkingum á dagsetningum, aukið norrænt samstarf og bætt upplýsingagjöf til neytenda.

Við höfum ekki efni á því að henda mat

Minni matarsóun skiptir ekki bara máli fyrir efnahag og viðbúnað í samfélaginu. Hún er líka þýðingarmikill liður í baráttu gegn loftslagsbreytingum. Rekja má um þriðjung allrar losunar í heimi til matvælakerfa og því mætti draga mikið úr losun frá matvælaframleiðslu með því að minnka matarsóun.

„Við höfum ekki efni á því að henda mat lengur. Matarsóun þarf að vera forgangsmál vegna loftslagsins, umhverfisins, viðbúnaðar og efnahagsins,“ segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar sem fær skýrsluna afhenta í dag.

Skýrslan er liður í aukinni áherslu á vinnuna að því að draga úr matarsóun á Norðurlöndum.

„Ráðherrar okkar hafa háleit markmiðu um að draga úr matarsóun um helming fyrir 2030 og efla norrænt samstarf á þessu sviði. Það sýnir að við erum tilbúin að taka að okkur forystuhlutverk þegar kemur að því að draga úr sóun,“ segir Karen.

Skýrslan, sem unnin er af vísindamönnum við háskólann í Karlstad, er ein af mörgum liðum í því sem gert er innan norræns samstarfs til þess að draga úr matarsóun.

Öflugar aðgerðir eru nauðsynlegar

Skýrslan virkar eins og handbók fyrir stjórnmálamenn, ráðamenn og embættismenn í norrænu löndunum. Markmiðið er að ná betri árangri á svæðinu í því að læra hvert af öðru og þeim aðgerðum sem nú þegar eru til staðar. Jafnframt eru settar fram tillögur að því hvernig norrænu löndin geta unnið frekar að því að draga úr matarsóun í skýrslunni.

„Þetta snýst um allt frá því að innleiða öflug pólitísk verkfæri til að draga úr sóun, efla norrænt samstarf og gera skýrari kröfur um miðlun gagna ásamt því að meta og vinna skýrslur um matarsóun,“ segir Helén Williams, dósent í umhverfis- og orkukerfum sem er ein af höfundum skýrslunnar.

Tillögur að pólitískum aðgerðum til að draga úr matarsóun  

  • Takmarka verslunarherferðir
  • Útbúa yfirlit yfir reglur um merkingar á dagsetningum
  • Aukin athygli á hlutverki umbúða þegar kemur að því að draga úr matarsóun
  • Virkja almenning til þess að leggja mat á sína matarsóun á alþjóðlegum degi matarsóunar
  • Efla norrænt samstarf og koma á norrænum samstarfsvettvangi til að draga úr matarsóun
  • Kerfisbundið mat og eftirfylgni
  • Kröfur um gagnamiðlun og skýrslugjöf um matarsóun

Norræna ráðherranefndin tekur nú við tillögum vísindamannanna og verða þær ræddar innan norræns samstarfs og jafnframt komið áfram til norrænu landanna. Í þessari vinnu mun Norrænu ráðherranefndin áfram virka sem vettvangur fyrir pólitíska þróun og samvinnu.

 

Skýrslan er hluti af hinu norræna átaki Sjálfbær og heilbrigð matvælakerfi á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Skýrslan er ein af mörgum aðgerðum til að draga úr matarsóun í tengslum við þá pólitísku skuldbindingu sem norrænir ráðherrar matvælamála undirgengust árið 2023 – Dregið úr matarsóun fyrir græn Norðurlönd

Tengiliður