Jessica Schiefauer

Jessica Schiefauer
Ljósmyndari
Ola Kjelbye
Jessica Schiefauer: Pojkarna, 2011

Unglingasaga Jessica Schiefauers Pojkarna fjallar um hina fjórtán ára Kim og vinkonur hennar Bellu og Momo, þrjár stelpur sem eru á mörkum barndómsára og fullorðinsára. Í garðinum hjá Bellu er gróðurhús þar sem stelpurnar skapa og leika sér í eigin heimi, frjálsu svæði þar sem önnur lög gilda. Í gróðurhúsinu er einnig töfrablóm, en safinn úr blóminu breytir stelpunum í stráka, karlmennskulyf sem breytir þeim úr þolendum í gerendur. Á næturferðum sínum njóta þær þess valds og þeirra forréttinda sem líkami stráka býður upp á, sérstaklega Kim sem laðast sífellt lengra inni samkynhneigðan klíkuheim strákanna, samfélag sem einkennist af ofbeldi, grimmd og hómóerótískum undirtónum.

Í Pojkarna blandast saga og ímyndun raunsærri frásögn af því hvernig er að alast upp í nútímanum, séð frá sjónarhóli stúlkna. Jafnframt er þetta hugmyndaskáldsaga sem lýsir ólíkum aðstæðum stráka og stelpna þar sem tekist er á við mikilvægar spurningar um kynferði. Schiefauer kannar mörk sjálfsins og líkamans og í lýsingunni á Kim lýsir hún sjálfsmynd og kynferði sem lýsa eilífri hreyfingu, eitthvað sem er síbreytilegt og til umræðu. Sagan hefur ljóðræna vídd og hugmyndaríkt myndmál sem hittir í mark. Jessica Schiefauer (f. 1978) er fædd og uppalin í Kungälv nálægt Gautaborg. Hennar fyrsta skáldsaga Om du var jag kom út árið 2009.