Fallen Leaves – Finnland

Ljósmyndari
Sputnik
Finnska kvikmyndin „Fallen Leaves“ („Kuolleet lehdet“) er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

Ágrip

Í Fallen Leaves segir frá tveimur einmana manneskjum sem hittast fyrir tilviljun í Helsinki nótt eina og reyna í sameiningu að finna fyrstu, einu og stærstu ást lífs síns. Vegferð þeirra að þessu göfuga markmiði er yfirskyggð alkóhólisma mannsins, týndum símanúmerum og því að vita hvorki nöfn né heimilisföng hvort annars, sem og hinni almennu tilhneigingu lífsins til þess að setja hindranir í veg þeirra sem leita hamingjunnar.  

 

Hér er á ferð einkar ljúf tragíkómedía, sem öllum að óvörum er fjórði hlutinn í þríleik Aki Kaurismäki er kenndur hefur verið við verkamannastétt (Skuggar í Paradís, Ariel og Eldspýtnaverksmiðjustúlkan). 

Rökstuðningur

Fallen Leaves er tímalaus saga sem ber keim af sorg, nostalgíu og hinni gömlu Helsinki, sem lítið er orðið eftir af. Þessi mynd Aki Kaurismäki segir látlausa sögu af einmana konu að nafni Ansa og manni að nafni Holappa, sem hittast og verða ástfangin. Hið nýkviknaða samband er þó hætt komið vegna áfengisvanda Holappa. Innrásarstríð Rússa í Úkraínu er til staðar í formi bakgrunnshljóða. Hljóðin heyrast aðeins nokkrum sinnum úr útvarpi Ansa, en enduróma allt til loka myndarinnar. Þetta er hefðbundin saga að hætti Kaurismäki – einföld og lætur lítið yfir sér, en einstök sýn Kaurismäki sem handritshöfundar og leikstjóra ljær henni mikilfengleika. Hinn flæðandi frásagnarmáti myndarinnar, húmor hennar og naíf ástarsaga að hætti Kaurismäki eru allt kunnugleg stef en í þetta sinn mætir hinn horfni heimur þeirri bjartsýnislöngun sem einkennir samtíma okkar. Allt birtist þetta ljóslifandi í ferskri nærveru þeirra Alma Pöysti og Jussi Vatanen í hlutverkum Ansa og Holappa. Þegar upp er staðið skipta ástin og vonin mestu máli. 

Leikstjóri, handritshöfundur & framleiðandi – Aki Kaurismäki

Aki Kaurismäki er finnskur leikstjóri sem skrifar einnig handrit að myndum sínum og framleiðir þær. Hann hefur verið heimsþekktur um áratugaskeið og myndir hans hafa verið sýndar í fjölmörgum löndum í öllum álfum. Nýjasta mynd hans, Fallen Leaves, hefur verið seld til fleiri en 70 landa og fékk mesta aðsókn alllra finnskra kvikmynda í heimalandinu á síðasta ári. Kaurismäki hefur hlotið mikinn fjölda alþjóðlegra verðlauna þar sem helst ber að nefna fjölmörg Fipresci-verðlaun, Silfurbjörninn á Berlínarhátíðinni og bæði Grand Prix og dómnefndarverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Cannes. 

Framleiðandi – Misha Jaari

Misha Jaari er meðstofnandi framleiðslufyrirtækisins Bufo í Helsinki, sem stofnað var árið 2007. Á meðal mynda sem Bufo hefur framleitt eru myndir Aki Kaurismäki Fallen Leaves, sem var tilnefnd til Golden Globe-verðlauna, og The Other Side of Hope, sem fékk Silfurbjörninn á Berlínarhátíðinni, hin margverðlaunaða The Gravedigger’s Wife eftir Khadar Ayderus Ahmed, Armi Alive! eftir Óskarsverðlaunahafann Jörn Donner og Concrete Night eftir Pirjo Honkasalo. Bufo hefur einnig komið að framleiðsluferli fjölmargra alþjóðlegra kvikmyndaverkefna. 

Framleiðandi – Mark Lwoff

Mark Lwoff er meðstofnandi framleiðslufyrirtækisins Bufo í Helsinki, sem stofnað var árið 2007. Á meðal mynda sem Bufo hefur framleitt eru myndir Aki Kaurismäki Fallen Leaves, sem var tilnefnd til Golden Globe-verðlauna, og The Other Side of Hope, sem fékk Silfurbjörninn á Berlínarhátíðinni, hin margverðlaunaða The Gravedigger’s Wife eftir Khadar Ayderus Ahmed, Armi Alive! eftir Óskarsverðlaunahafann Jörn Donner og Concrete Night eftir Pirjo Honkasalo. Bufo hefur einnig komið að framleiðsluferli fjölmargra alþjóðlegra kvikmyndaverkefna. 

Titill á frummáli: Kuolleet lehdet 

Alþjóðlegur titill: Fallen Leaves 

Leikstjóri: Aki Kaurismäki 

Handritshöfundur: Aki Kaurismäki 

Framleiðendur: Aki Kaurismäki, Misha Jaari, Mark Lwoff 

Meðframleiðandi: Reinhard Brundig 

Framleiðslufyrirtæki: Sputnik Oy, Bufo 

Dreifingarfyrirtæki: B-Plan Distribution 

Frumsýningardagur í heimalandinu: 15.09.23 

Heildarlengd í mínútum: 81 mínúta