Min arv bor i dig – Danmörk

Ljósmyndari
Sonntag Pictures
Danska heimildarmyndin „Min arv bor i dig“ hlýtur tilnefningu til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

Ágrip

Í Min arv bor i dig fylgjumst við með dansk-íranskri kvikmyndagerðarkonu í sex ára langri vegferð sem einkennist af kjarki og einlægni og hverfist um krabbamein, ást og risavaxið lífsverkefni: hún hyggst kortleggja hina stormasömu sögu fjölskyldu sinnar. Hér er á ferð tilvistarleg og filterslaus ljóðræna þar sem ógleymanleg kona er báðum megin við myndavélina. 

 

Roja Pakari er dönsk-írönsk kvikmyndagerðarkona sem stendur andspænis mestu erfiðleikum sem hún hefur upplifað á sinni 36 ára ævi. Þegar hún gengur með Oskar son sinn greinist hún með ólæknandi krabbamein. Hún reynir að finna sjálfa sig, haldin ólæknandi sjúkdómi og ábyrg fyrir velferð lítils barns. Min arv bor i dig segir átakamikla sögu þar sem Pakari skrásetur af einlægni daglegt líf sitt og hugleiðingar um að lifa með sjúkdómi sem gæti tekið allt frá henni. Hvernig er hægt að lifa með þeirri vitneskju að okkar dýrmæti tími hér á jörðinni kunni senn að vera á þrotum? Roja vorkennir ekki sjálfri sér. Hún leggur sig fram um að lifa í núinu og kortleggja íranska arfleifð sína og stormasaga fjölskyldusöguna – sögu sem tók nýja stefnu þegar foreldrar hennar, sem höfðu verið virk í stjórnmálum, flúðu Íran eftir byltinguna og enduðu í Danmörku. 

 

Min arv bor i dig er alls ekki kvikmynd í skugga dauðans. Þetta er ófyrirséð ástarsaga sem dregur upp kjarkaða (sjálfs)mynd af konu sem er móðir, eiginkona, dóttir og umfram allt listamaður. 

Rökstuðningur

Þegar krabbameinssjúkur kvikmyndaleikstjóri snýr myndavélinni að eigin ólæknandi sjúkdómi og fjölskyldu sinni gæti útkoman auðveldlega orðið of persónuleg. Með Min arv bor i dig hefur Roja Pakari þó tekist að skapa ógleymanlegt sendibréf á kvikmyndaformi – bréf sem stílað er á son hennar. Myndin er afar hjartnæm og átakanleg hvað varðar lýsingarnar á tilraunum Roja til að koma ævisögu sinni áfram til sex ára sonarins, Oskars, og geymir um leið algildan lífssannleik í djúpri, tilvistarlegri frásögn. Hér er fjallað um svo margt fleira en krabbamein og sorg. Um fjölskyldulíf, móðurhlutverkið, togstreitu milli menningarheima og þá von og arfleifð sem gengur áfram til næstu kynslóðar. 

 

Senurnar þar sem Roja er með Oskari eru átakanlegar án þess að verða nokkurn tíma klisjukenndar. Hann skilur vitanlega ekki alvöru málsins og horfir á móður sína í sjúkrarúminu eins og ókunnuga manneskju. Þessar senur eru ekta, einfaldar og tilfinningaþrungnar. Hvað stílinn snertir er myndin gríðarlega vel heppnuð blanda af hrárri vídjódagbók og ljóðrænni, esseyjukenndri leit að Íran – því áþreifanlega við landið, jafnt sem hinu myndhverfa – upprunalandi Roja, landinu sem hún vonast til að geta komið áfram til sonar síns. Myndin er einnig margslungin greining á nútíð, fortíð og framtíð – kristallaðar svipmyndir af tímabilum. Við sjáum núið sem Roja berst fyrir að dvelja í á meðan hún getur, fortíðina sem hún óttast að hverfi með sér og framtíðina sem sonur hennar mun þurfa að mæta án hennar. 

 

Min arv bor i dig er einlægt listaverk sem dettur aldrei í gryfju naflaskoðunar. Mynd sem spyr spurninga, opnar sig fyrir umheiminum og býður bæði syninum Oskari og áhorfendum að öðlast endurnýjaðan sjálfsskilning. 

Leikstjóri og handritshöfundur – Roja Pakari

Roja Pakari útskrifaðist frá Kvikmyndaskóla Danmerkur árið 2015. Á árunum 2013–2017 vann hún að fjölmörgum kvikmyndum sem unnið hafa til verðlauna, svo sem Love Child eftir Evu Mulvad. Hún hefur einnig leiðbeint ungu fólki í ýmsum verkefnum. 

 

Roja og fjölskylda hennar flúðu íslömsku byltinguna í Íran á níunda áratugnum og fengu hæli í Danmörku. Min arv bor i dig er fyrsta mynd hennar í fullri lengd. 

Leikstjóri – Emilie Adelina Monies

Emilie Adelina Monies er dönsk kvikmyndagerðarkona sem starfar í Ósló og Kaupmannahöfn. Hún lauk námi frá danska listaljósmyndunarskólanum Fatamorgana og Kvikmyndaskóla Noregs, og starfar nú að gerð þematískra heimildarmynda. Hún hefur aðstoðað við framleiðslu fjölda heimildarmynda, svo sem Kirsebæreventyret (2019), School of Seduction (2019), Aquarela (2018) og hinnar væntanlegu The Missing Films. Hún hefur einnig starfað við kvikmyndatöku í myndunum I walk (2020) og Gina Jaqueline – Midt i en drøm (2018). 
 

Handritshöfundur – Denniz Göl Bertelsen

Denniz Göl Bertelsen er klippari og handritshöfundur. Hann útskrifaðist sem klippari frá Kvikmyndaskóla Danmerkur árið 2017. Bertelsen hefur klippt fjölda heimildarmynda, þar á meðal The Cave (2019), sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna. Fyrsta myndin í fullri lengd sem hann skrifaði handrit að var heimildarmyndin Kandis for livet (2021), sem hann klippti líka.

Framleiðandi – Sara Stockmann

Sara Stockmann, kvikmyndaframleiðandi og stofnandi framleiðslufyrirtækisins Sonntag Pictures, hefur framleitt fleiri en 30 heimildarmyndir og þáttaraðir frá árinu 2005. Margar myndanna hafa hlotið alþjóðleg verðlaun og viðurkenningar – þar á meðal heimildarmyndin Armadillo eftir Janus Metz, sem hlaut Emmy-verðlaun og verðlaun á Cannes-hátíðinni, og Bobbi Jene eftir Elvira Lind, Óskarstilnefndan leikstjóra, sem hlaut verðlaun á Tribeca-hátíðinni. Árið 2024 hlaut Stockmann IB-verðlaunin, kvikmyndaverðlaun sem félag danskra kvikmyndaleikstjóra veitir kvikmyndaframleiðendum fyrir hugrakka, nýskapandi og anarkíska sköpun. Sara Stockmann er félagi í Academy of Motion Picture Arts & Science.  

Titill á frummáli: Min arv bor i dig 

Alþjóðlegur titill: The Son and the Moon  

Leikstjórar: Roja Pakari, Emilie Adelina Monies 

Handritshöfundur: Roja Pakari, Denniz Göl Bertelsen 

Framleiðandi: Sara Stockmann 

Framleiðslufyrirtæki: Sonntag Pictures 

Dreifingarfyrirtæki: Sonntag Pictures 

Frumsýningardagur í heimalandinu: 18.03.2024 

Heildarlengd í mínútum: 94 mínútur