Passage – Svíþjóð

Ljósmyndari
Haydar Taştan
Sænska kvikmyndin „Passage“ hlýtur tilnefningu til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

Ágrip

Lia, kennari á eftirlaunum, lofaði eitt sinn að komast að því hvað varð um Teklu, systurdóttur hennar sem hvarf fyrir löngu. Þegar nágranninn Achi segir henni að Tekla gæti verið í Tyrklandi leggja þau upp í ferðalag að leita hennar. Þau koma til Istanbúl og sjá gullfallega borg, fulla af samböndum og möguleikum – en það reynist þrautin þyngri að leita manneskju sem ekki vill finnast. Lia og Achi þræða húsasund borgarinnar og finnst þau brátt vera nær sannleikanum um afdrif Teklu en nokkru sinni fyrr. 

Rökstuðningur

Passage er tilfinningaþrungið ferðalag sem spannar allt frá fátækrahverfum í georgíska bænum Batumi við Svartahafið og til samfélags trans fólks í hinni iðandi stórborg Istanbúl. Lia, kennari sem sest er í helgan stein, heldur í ferðalag í leit að Teklu, týndri systurdóttur sem hún lofaði systur sinni að hún skyldi finna. Achi er táningur sem eygir tækifæri til að flýja vonleysislega tilveru sína. Hann lýgur því til um eigin tyrkneskukunnáttu, sem og um vitneskju sína um dvalarstað Teklu í Istanbúl. Þegar þau koma til stórborgarinnar eru þau langt frá ferðamannastöðum og bláum moskum en hitta þess í stað fyrir samfélag sem er sjaldan sýnilegt og oft jaðarsett, samfélag fólks sem háir eilífa baráttu fyrir því að fá að vera það sjálft. Lia og Achi kynnast nýju fólki, upplifa ýmislegt nýtt og ferðalag þeirra beinist æ meir inn á við.  

 

Myndataka Lisabi Fridell einkennist af mikilli auðgi, nánd og blíðri samlíðan og fylgir þróun persónanna eftir í heimi þar sem draumar mæta óblíðum veruleika.  

 

Passage er flókin og mannúðleg rannsókn á öllum persónum myndarinnar, og hið nána samband milli leikstjórans og leikaranna skapar tilfinningu fyrir mikilli nálægð við áhorfendur. Þrátt fyrir þá miklu óvild sem einkennir oft samfélagsumræðu um trans málefni tekst Akin að lýsa þörfinni fyrir að eiga sér drauma og samastað, þörf sem býr í okkur öllum, af kímni, samkennd og mikilli hlýju. Og svo lýkur hann öllu saman með hrikalegri lokasenu sem er afar krefjandi frá sjónarhorni kvikmyndatöku, og einnig fyrir áhorfendur. 

Leikstjóri / handritshöfundur – Levan Akin

Levan Akin er sænskur kvikmyndagerðarmaður af georgískum uppruna sem fæst við málefni á borð við stétt, kynvitund og kynverund í verkum sínum. Á meðal höfundarverka hans er myndin And Then We Danced, sem var frumsýnd á Directors‘ Fortnight á Cannes-kvikmyndahátíðinni 2019, hlaut mikið lof og var valin sem framlag Svíþjóðar til Óskarsverðlaunanna. Akin hefur einnig vakið athygli fyrir störf sín í sjónvarpi, meðal annars þáttaröðina Äkta människor (sýnd sem Humans á vegum AMC í Bandaríkjunum og Bretlandi). Hann var einnig meðframleiðandi og leikstjóri aðlögunar AMC á Interview with the Vampire (2022), sem hlotið hefur mikið lof. Passage er nýjasta mynd Akins. Hún var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín árið 2024.

Framleiðandi – Mathilde Dedye

Mathilde Dedye stofnaði framleiðslufyrirtækið French Quarter Film árið 2011 ásamt Mattias Sandström. Þetta sjálfstæða, sænska fyrirtæki hefur unnið til verðlauna fyrir störf sín og þróar kvikmyndir þar sem sýn höfundarins er í fyrirrúmi, nokkurs konar „art house“-framtak á evrópska vísu. Í dag framleiðir fyrirtækið alls konar verk á alls konar formi í samstarfi við suma af áhugaverðustu leikstjórum Svíþjóðar. 

 

Nýjasta mynd Dedye, Passage eftir Levan Akin, var opnunarmyndin í Panorama-flokki kvikmyndahátíðarinnar í Berlín árið 2024. Hún framleiddi einnig And Then We Danced eftir Levan Akin (2019), sem var frumsýnd á Directors‘ Fortnight í Cannes, og Återträffen (2013) eftir Anna Odell, sem var frumsýnd á gagnrýnendaviku kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum árið 2013. Dedye hefur líka framleitt tvær vinsælar vefgamanseríur fyrir sænska sjónvarpið.

Titill á frummáli: Passage 

Alþjóðlegur titill: Crossing 

Leikstjóri: Levan Akin 

Handritshöfundur: Levan Akin 

Framleiðandi: Mathilde Dedye 

Framleiðslufyrirtæki: French Quarter Film 

Dreifingarfyrirtæki: Triart Film, Reel Pictures, Mer Film; Cinema Mondo 

Frumsýningardagur í heimalandinu: 16.03.24

Heildarlengd í mínútum: 105 mínútur