Sex – Noregur

Ljósmyndari
Motlys
Norska kvikmyndin „Sex“ hlýtur tilnefningu til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

Ágrip

Í Sex fylgjumst við með tveimur karlmönnum sem eru í gagnkynhneigðum hjónaböndum en verða fyrir reynslu sem hefur áhrif á upplifun þeirra af kynverund, kyni og kynvitund. 
Annar mannanna stundar óvænt kynlíf með öðrum manni og upplifir það hvorki sem samkynhneigða tjáningu né sem framhjáhald. Hinn fer að dreyma drauma þar sem David Bowie sér hann sem konu, sem veldur honum uppnámi og fær hann til að velta því fyrir sér að hve miklu leyti persónuleiki fólks mótist af sýn annarra. 

Rökstuðningur

Með Sex hefur leikstjórinn og handritshöfundurinn Dag Johan Haugerud skapað fágaða og skemmtilega kvikmynd um karlmennsku og kynverund. Tveir samstarfsmenn deila furðulegri reynslu. Báðir standa frammi fyrir erfiðleikum varðandi eigin hugmyndir um sjálfa sig sem karlmenn og feður. Tilraunum mannanna til að leysa úr vandamálum sínum er lýst af samlíðan, frumleika og markvissri fagurfræði sem festir Haugerud enn frekar í sessi sem einn áhugaverðasta kvikmyndagerðarmann Noregs. Innihaldsrík og fyndin samtöl verða enn betri fyrir tilstilli sjónræns tungumáls sem virðist allt að því setja fram athugasemdir um söguþráð myndarinnar. Hér fær Haugerud trausta hjálp frá aðalleikurunum tveimur, Torbjørn Harr and Jan Gunnar Røise, sem báðir sýna frábæra frammistöðu. Hið sama á við um myndatöku Cecilie Semec, sem tekst stöðugt að finna nýjar og spennandi breiðtjaldssamsetningar og sjónarhorn á Ósló nútímans, án þess þó að draga athyglina frá auðugu handriti Haugeruds. Ásamt klipparanum Jens Christian Fodstad skapa þau skemmtilega og áhugaverða kvikmyndalýsingu á tveimur trúverðugum, norrænum karlmönnum sem ganga í gegnum trúverðugar, manneskjulegar raunir. 

Leikstjóri / handritshöfundur – Dag Johan Haugerud

Dag Johan Haugerud hefur skapað sér nafn sem einn áhrifamesti handritshöfundur og leikstjóri Noregs, auk þess að fást við skáldsagnaritun. Mynd hans Som du ser meg (2012) hlaut hin norsku Amöndu-verðlaun fyrir bestu kvikmynd, leikstjórn, handrit og leikkonu í aukahlutverki. Myndin fékk einnig verðlaun kvikmyndagagnrýnenda í Noregi og var framlag Noregs til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. 
Myndin Barn (2019) var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum, vann til Dragon-verðlauna fyrir bestu myndina og besta leikarann á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg og hlaut níu Amöndu-verðlaun, auk verðlauna kvikmyndagagnrýnenda í Noregi og kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Haugerud hefur einnig leikstýrt stuttmyndunum Det er meg du vil ha (2014) og Lyset fra sjokoladefabrikken (2020).

Framleiðandi – Yngve Sæther

Yngve Sæther er einn reyndasti og mest verðlaunaði framleiðandi Noregs og hefur framleitt um tuttugu kvikmyndir á jafnmörgum árum. Hann hefur þrisvar hlotið Amöndu-verðlaun fyrir bestu mynd: fyrir Mannen som elsket Yngve (2008), Som du ser meg (2012) og Barn (2019). Fimm af kvikmyndum hans hafa verið framlag Noregs til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. 

Framleiðandi – Hege Hauff Hvattum

Hege Hauff Hvattum er enn einn kvikmyndaframleiðandinn sem kemur frá framleiðslufyrirtækinu Motlys. Hún hóf ferilinn sem sjálfstætt starfandi framleiðandi og framleiddi tvær sjónvarpsþáttaraðir fyrir NRK: Lovleg (tvær seríur, 2018–2019) og 24ra þátta jóladagatal undir nafninu Kristiania magiske tivolitheater (2021). 
Árið 2024 hefur verið býsna annasamt hjá Hvattum. Fyrsti hluti þríleiksins SEX DREAMS LOVE eftir Dag Johan Haugerud (Sex, 2024, sýnd í Panorama-flokknum á Berlínarhátíðinni og hlaut 10 Amöndu-tilnefningar), hefur þegar verið frumsýndur og myndirnar Dreams og Love verða frumsýndar í haust.

Titill á frummáli: Sex 

Alþjóðlegur titill: Sex 

Leikstjóri: Dag Johan Haugerud 

Handritshöfundur: Dag Johan Haugerud  

Framleiðendur: Yngve Sæther, Hege Hauff Hvattum 

Framleiðslufyrirtæki: Motlys 

Dreifingarfyrirtæki: Arthaus 

Frumsýningardagur í heimalandinu: 01.03.24 

Heildarlengd í mínútum: 126 mínútur