Snerting – Ísland

Ljósmyndari
Breki Samper, RVK Studios
Íslenska kvikmyndin „Snerting“ hlýtur tilnefningu til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

Ágrip

Kristófer, ekkill á eftirlaunaaldri, stendur á tímamótum þegar heimsfaraldurinn skellur á. Hann hefur ákveðið að loka veitingastað sínum – ekki aðeins vegna heimsfaraldursins, heldur af því að hann veit að heilsu hans fer hrakandi. Læknir Kristófers hvetur hann til að ganga frá sínum málum og hann tekur skyndiákvörðun um að fara í ferðalag til að leita svara við ráðgátu sem hefur ásótt hann lengi. 

 

Þegar hann var við nám í Lundúnum fyrir fimmtíu árum síðan hvarf kærasta hans, hin japanska Miko, sporlaust ásamt föður sínum. Kristófer og Miko höfðu bæði unnið á veitingastað föður hennar, Nippon. Þegar Kristófer mætti til vinnu einn daginn kom það honum á óvart að veitingastaðurinn reyndist mannlaus og lokaður. Enginn virtist vita hvað hafði orðið af feðginunum. Kristófer var niðurbrotinn. Þau Miko höfðu verið yfir sig ástfangin þetta sumar – hið fjöruga sumar ársins 1969, þegar unga fólkið reis upp og mótmælti ríkjandi samfélagsgerð með vonir sínar og drauma í farteskinu.  

 

Við fylgjum Kristóferi til Lundúna og þaðan til Japan, þar sem hann vonast til að leysa gátuna. Ferðalagið liggur þó einnig á slóð minninganna, hálfa öld aftur í tímann: að ástríðufullu sambandi hins unga Kristófers og Miko. 

Rökstuðningur

Í þessari spennandi ástarsögu segir Baltasar Kormákur frá manni sem leitar löngu glataðrar ástar og leggur upp í tilfinningaþrungið ferðalag sem ber hann aftur í tímann til mikils mótunartímabils á ævi hans, sem og yfir hálfan hnöttinn.  

 

Gegnum markvissa listræna stjórnun, sterka myndrænu og frábæra myndatöku tekst leikstjóranum að endurskapa Lundúnir sjöunda áratugarins með sannfærandi hætti, samhliða Íslandi og Japan nútímans. Lágstemmd tónlistin styður við frábæra frammistöðu leikaranna á áhrifaríkan og næman hátt og greiðir fyrir framvindu sögunnar, þar sem við kynnumst smám saman mætti æskuástarinnar og því hvernig sársauki fortíðar getur ógnað hinu viðkvæma upphafsstigi nýkviknaðs ástarsambands. 

 

Þó að hér sé sögð harmræn saga af mannlegri reynslu tekst Baltasar að skilja þannig við áhorfendur að þeir finna til vonar og eru – líkt og titillinn gefur vísbendingu um – snortnir. 

Leikstjóri, handritshöfundur & framleiðandi – Baltasar Kormákur

Eftir útskrift frá Leiklistarskóla Íslands árið 1990 sló Baltasar Kormákur fljótlega í gegn á fjölum Þjóðleikhússins og var þar einn af fremstu ungu leikurum landsins næsta áratuginn, þar sem hann vann með ýmis sígild verk leikhúsbókmenntanna og hlaut einnig lof sem leikstjóri. Eftir að hafa leikstýrt sinni fyrstu kvikmynd, 101 Reykjavík (2000), sem hlaut ýmis verðlaun og naut alþjóðlegrar velgengni, stofnaði Baltasar sitt eigið framleiðslufyrirtæki. Allar götur síðan hefur hann fengist við kvikmyndagerð, bæði sem leikstjóri, handritshöfundur og framleiðandi, með frábærum árangri. Hann er einn af frjóustu leikstjórum Evrópu nú um stundir og starfar beggja vegna Atlantshafsins. Framleiðslufyrirtæki hans, RVK Studios, er það stærsta sinnar tegundar á Íslandi og framleiðir kvikmyndir og sjónvarpsþætti, auk þess að sinna framleiðsluþjónustu fyrir aðra.

Handritshöfundur – Ólafur Jóhann Ólafsson

Ólafur Jóhann Ólafsson hefur sent frá sér fjölda skáldsagna. Bækur hans hafa verið gefnar út á fleiri en tuttugu tungumálum og aflað honum mikils lofs og fjölda verðlauna. Auk ritferilsins hefur Ólafur Jóhann gegnt stjórnunarstöðum í skemmtana- og tæknigeiranum. Árið 1991 stofnaði hann fyrirtækið Sony Computer Entertainment og var, sem forstjóri fyrirtækisins, í forsvari fyrir kynningu á hinni ofurvinsælu leikjatölvu Sony PlayStation í Bandaríkjunum og Evrópu. Síðar varð hann aðstoðarforstjóri Time Warner og sinnti þar ýmsum málaflokkum, svo sem stefnumótun, viðskiptaþróun, tæknimálum, samrunum og yfirtökum auk alþjóðlegrar starfsemi. Hann gegndi lykilhlutverki við sölu fyrirtækisins til AT&T árið 2018.

Framleiðandi – Agnes Johansen

Eftir 15 ára starf við dagskrárgerð og framleiðslu hjá RÚV og Stöð 2, og síðar sem framleiðslustjóri hjá Sagafilm, var Agnes Johansen ráðin af Baltasar Kormáki til að vinna að framleiðslu Hafsins, annarrar kvikmyndar hans, árið 2001. 

 

Eftir það gekk hún til liðs við fyrirtæki Baltasars og hefur síðan starfað sem framleiðandi kvikmynda í fullri lengd, auk sjónvarpsþáttaraða sem fyrirtækið hefur framleitt frá árinu 2012. Á meðal mynda sem Agnes hefur framleitt eru Mýrin (2006), Djúpið (2012), Fúsi (2015) og Against the Ice (2022), auk sjónvarpsþáttaraðarinnar Kötlu (2021).

Titill á frummáli: Snerting 

Alþjóðlegur titill: Touch 

Leikstjóri: Baltasar Kormákur 

Handritshöfundur: Ólafur Jóhann Ólafsson, Baltasar Kormákur 

Framleiðendur: Agnes Johansen, Baltasar Kormákur 

Framleiðslufyrirtæki: RVK Studios 

Dreifingarfyrirtæki: Focus Features, Universal 

Frumsýningardagur í heimalandinu: 29.05.24 

Heildarlengd í mínútum: 120 mínútur