Twice Colonized – Grænland

Ljósmyndari
Donald Michael Chambers
Grænlenska heimildarmyndin „Twice Colonized“ hlýtur tilnefningu til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

Ágrip

Aaju Peter er þekktur lögfræðingur af Inúítaættum sem hefur helgað líf sitt baráttunni fyrir réttindum fólks síns. Aaju vinnur að því að stofna frumbyggjaráð á vettvangi Evrópusambandsins en lendir óvænt á erfiðri, persónulegri vegferð þegar hún þarf að huga að eigin sárum eftir skyndilegt fráfall sonar síns. 

Rökstuðningur

Þegar kemur að efnistökum og alþjóðlegum vinsældum hefur heimildarmyndinni Twice Colonized tekist það sem engin önnur mynd eftir grænlenskan framleiðanda og handritshöfund hefur áður gert. Lin Alluna fangar kjarnann í tilveru Aaju Peter með hráum tökustíl án þrífótar og mögnuð tónlist myndarinnar skapar jafnframt frumlegan hljóðheim. Í myndinni er dregin upp afar náin mynd af friðsælu hversdagslífi ástríkrar fjölskyldukonu á norðurslóðum, sem um leið er sterk og kraftmikil hugsjónakona sem berst ötullega fyrir mannréttindum Inúíta. 

 

Við fáum einnig innsýn í þær hráu og óblönduðu tilfinningar sem fylgja því þegar Aaju tekst á við fráfall sonar síns og er ásótt af ofbeldisfullum fyrrverandi kærasta. Til að geta náð markmiðum sínum þarf Aaju Peter að horfast í augu við fortíðina. Líkt og margir jafnaldrar hennar var hún send til náms í Danmörku. Hún þekkti hvorki menningu Danmerkur né talaði tungumálið, var tilneydd til að aðlagast og tapaði þar með sjálfsmynd sinni sem Inuk. Á fullorðinsárum varð Peter að flytja til Kanada til að finna aftur Inúítann í sjálfri sér. Hún brúar því bilið á milli tveggja menningarheima Inúíta og berst um leið fyrir betri framtíð fyrir Inúíta jafnt sem aðra frumbyggja. 

 

Með tímabærri og hnitmiðaðri frásögn tekst Twice Colonized að komast að kjarna hinnar hápólitísku baráttu sem Inúítar há í daglegu lífi, í heimi handan nýlendustefnu. Þemu tengd sjálfsmynd – bæði persónulegri og þjóðernislegri – eru áberandi í þessari einstaklega grænlensku sögu. 

Leikstjóri / handritshöfundur – Lin Alluna

Kvikmyndir Lin Alluna teygja sig út yfir mörk veruleikans og beina sjónum áhorfenda jafnframt að hugrökkum konum sem vilja breyta heiminum. Twice Colonized er fyrsta mynd hennar í fullri lengd. Hún var frumsýnd á Sundance-hátíðinni 2023 og var fyrsta myndin til að verða opnunarmynd á bæði CPH:DOX og Hot Docs. Alluna kennir kvikmyndagerð, er stjórnarmeðlimur í félagi danskra kvikmyndaleikstjóra og útskrifaðist frá hinum virta Kvikmyndaskóla Danmerkur. Hún hefur numið og starfað á vettvangi IDFAcademy, UnionDocs, DFI Outreach, Nordic Talents og Circle Women Doc Accelerator.

Handritshöfundur – Aaju Peter

Aaju Peter er ötul baráttukona fyrir réttindum frumbyggja í Norður-Kanada og málefnum tengdum sjálfbærni og náttúruauðlindum. Árið 2011 hlaut hún stærstu viðurkenningu Kanada, Kanadaorðuna, og hefur eftir það verið kölluð til ráðgjafar á vettvangi Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna. Twice Colonized er fyrsta verk hennar sem höfundar en meðfæddir frásagnarhæfileikar hennar og djúp þekking á nýlendustefnu, bæði á Grænlandi og í Kanada, gera myndina að tilvöldu framlagi Grænlands til verðlaunanna.

Framleiðandi – Emile Hertling Péronard

Emile Hertling Péronard er grænlenskur kvikmyndaframleiðandi sem hefur unnið til ýmissa verðlauna og verið tilnefndur til Óskarsverðlauna. Hann starfar bæði í Nuuk og Kaupmannahöfn. Hann var valinn „Producer on the Move“ á Cannes 2023 og myndir hans hafa verið sýndar á kvikmyndahátíðunum í Cannes, Feneyjum og Berlín, á Sundance-hátíðinni og víðar. Hann er formaður kvikmyndasjóðsins Arctic Indigenous Film Fund, situr í stjórn ARTEF – Anti-Racism Taskforce for European Film, er framkvæmdastjóri alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Nuuk og árið 2023 hlaut hann grænlensku kvikmyndaverðlaunin Innersuaq fyrir störf sín.

Titill á frummáli: Twice Colonized 

Alþjóðlegur titill: Twice Colonized 

Leikstjóri: Lin Alluna 

Handritshöfundur: Aaju Peter, Lin Alluna 

Framleiðandi: Emile Hertling Péronard 

Meðframleiðandi: Alethea Arnaquq-Baril, Stacey Aglok MacDonald, Bob Moore 

Framleiðslufyrirtæki: Ánorâk Film, Red Marrow Media, EyeSteelFilm 

Dreifingarfyrirtæki: Reel Pictures Entertainment 

Frumsýningardagur í heimalandinu: 19.09.23 

Heildarlengd í mínútum: 91 mínúta