Hafið í brennidepli á þemaþingi Norðurlandaráðs

28.03.18 | Fréttir
Hav
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Hvað getum við gert til þess að bjarga hafinu? Sú spurning verður efst á dagskrá Norðurlandaráðs á fundum og þemaþingi ráðsins á Akureyri dagana 9. og 10. apríl nk.

Hafið er forgangssvið í norrænu samstarfi á þessu ári þegar Norðmenn gegna formennsku í Norðurlandaráði. Í formennskuáætlun ársins 2018 stendur m.a. að formennskulandið skuli beita sér fyrir því að Norðurlöndin standi saman að „reglumiðaðri og sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins“.

Michael Tetzschner, forseti Norðurlandaráðs, bendir á að allar þjóðir Norðurlanda séu hafþjóðir og að hafið sé afar mikilvægt fyrir afkomu margra Norðurlandabúa. Hann bendir á mikilvægi þess að alþjóðlegar reglur séu skýrar nú þegar skipaumferð um norðurskautshöf fer vaxandi:

„Við sjáum nýjar siglingaleiðir opnast, til dæmis til Asíu. Norðurlöndin færast nær alþjóðlegum siglingaleiðum og verða því að sjá til þess að sú þróun sé í samræmi við lög og reglur. Ábyrgð strandríkja er mikil en þar leynast einnig mikil sóknarfæri. Við verðum að sjá til þess að farið sé eftir reglum um nýtingu auðlinda hafsins, að komið verði í veg fyrir ofveiði og að settar verði reglur um nýtingu jarðefna og annarra auðlinda á hafsbotni.“

Hafið rauður þráður á þemaþingi

Fjallað verður um hafið á þemaþinginu frá ýmsum sjónarhornum. Allar fjórar fagnefndir og forsætisnefnd Norðurlandaráðs fjalla um málefni hafsins og 10. apríl fer fram þemaumræða á sameinuðum þingfundi um málefni hafsins. Grundvöllur umræðunnar er 14. heimsmarkmiðið í Dagskrá 2030 um sjálfbæra þróun en það fjallar um lífríki hafsins.

Til undirbúnings fyrir umræðuna fá þingmenn greinargerð um hve langt Norræna ráðherranefndin er omin í starfi sínu að 14. heimsmarkmiðinu.

Fundað í tvo daga

Þemaþing Norðurlandaráðs fer fram á Akureyri í tvo daga. Fyrri daginn funda flokkahóparnir en þann seinni er sameinaður þingfundur.

Þemaþing Norðurlandaráðs eru haldin í apríl á ári hverju og helguð ákveðnu málefni. Norðurlandaráð er samstarfsvettvangur þjóðþinganna. Ráðið skipa 87 fulltrúar frá öllum Norðurlöndum, einnig Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.