Norræna ráðherranefndin: „Stöðva ber flökkulæknana“

09.10.15 | Fréttir
Flökkulæknar ógna öryggi sjúklinga á Norðurlöndum. Um þetta ríkir samstaða innan norræns samstarfs. Ráðherranefndin hefur nú um nokkurt skeið unnið ötullega að breytingum á Arjeplog-samningnum, með öryggi sjúklinga fyrir augum. Í þeim samningi og í tilskipun Evrópusambandsins um starfsréttindi (2005/36/EB) er að finna reglur um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Markmiðið með breytingunni á Arjeplog-samningnum er að fylla upp í smugur í reglugerðinni sem gera læknum án tilhlýðilegra starfsréttinda kleift að nýta norræna samninga til þess að fá atvinnu í öðru landi. 

Í starfsréttindatilskipun ESB (2005/36/EB) eru ekki sambærilegar smugur. 

Breytingatillagan verður lögð fyrir Norðurlandaráð á þinginu í Reykjavík 26.–29. október.

Þingmenn Norðurlandaráðs hafa lagt til að komið verði upp rafrænni skrá yfir heilbrigðisstarfsfólk á Norðurlöndum sem hefur hlotið aðvörun í starfi eða misst starfsréttindi sín í einhverju Norðurlandanna.

Ráðherranefndin telur að slík skrá muni ekki geta leyst þann vanda, sem flökkulæknar skapa, nema hún verði unnin í nánu norrænu samstarfi um gagnkvæm upplýsingaskipti og byggð á viðvörunarkerfi ESB, IMI (International Market Information System).

Í ljósi þess að fjölmiðlar fylgjast með málinu leggur Norræna ráðherranefndin fram helstu skjöl sem varða formlegt samráð Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar um málið: