Ráðherrar ræddu framleiðni og fjármálastefnu á krísutímum

04.06.24 | Fréttir

Finansministrarna träffades i Stockholm 3-4 juni 2024 tillsammans med generalsekreteraren.

Ljósmyndari
norden.org

Fjármálaráðherrarnir hittust í Stokkhólmi dagana 3.-4. júní ásamt framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar

Norrænir ráðherrar efnahags- og fjármála hittust dagana 3.-4. júní í Stokkhólmi til að ræða sameiginlegar áherslur. Meginefni fundarins snerist um framleiðni og hvaða lærdóm má draga af krísum síðustu ára við stjórn efnahagsmála.

Ráðherrarnir ræddu sameiginlegar áskoranir hvað varðar framleiðni á Norðurlöndum og um reynsluna af aðgerðum í hverju landi og umbætur til að efla framleiðinivöxt, atvinnustig og vaxtarmöguleika í norrænu löndunum. Framleiðnivöxtur er mikilvæg forsenda fyrir hagvöxt og velferð á Norðurlöndum. Á fundinum var ráðherrunum kynntar bráðabirgðaniðurstöður og ráðleggingar sem fram koma í áfangaskýrslu framleiðniráðs sænsku ríkisstjórnarinnar. 

Það er alltaf gefandi að bera saman reynslu með norrænum kollegum mínum. Mörg líkindi eru með löndunum okkar, bæði hvað varðar þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir, en einnig hvað varðar sýn okkar á hvernig eigi að leysa úr þeim. Framleiðni og samkeppnishæfni eru einmitt lykilatriði fyrir samegininlega velferð okkar til framtíðar og ég fagna því að við ræðum þetta sameginlega á norrænum vettvangi 

Elisabeth Svantesson fjármálaráðherra Svíþjóðar

Mikilvægt að draga lærdóm af krísum síðustu ára

Á fundinum var einnig fjallað um reynslu norrænu landanna af stjórnun efnahagsmála undir heimsfaraldri og orkukrísu og verðbólgutímum sem komu í kjölfarið. Þetta er einmitt meginefni skýrslunnar  Economic Policy beyond the Pandemic in the Nordic Countries frá apríl 2024, sem Norræna ráðherranefndin fjármagnaði. Ráðherrarnir ræddu sérstaklega hlutverk efnahagsstefnu á krísutímum hvað varðar efnahagsstöðugleika og stuðning við heimili og fyrirtæki. Þá ræddu þeir langtímahorfur í efnahagsmálum á Norðurlöndum í ljósi lýðfræðilegrar þróunar. Ráðherrarnir voru sammála um að mikivægt væri að læra af krísum liðinna ára svo hægt verði að laga stjórnun efnahagsmála að ófyrirséðum kreppum framtíðarinnar.

Á fundinum náðu ráðherrarnir samstöðu um sameiginleg mál og forgangsröðun fyrir norræna samstarfið á sviði efnahags- og fjármála til ársins 2030. Markmiðin koma fram í nýrri samstarfsáætlun fyrir árin 2025-2030, sem kynnt verður haustið 2024 á Norðurlandaráðsþingi.

Nýr Eyrarsundsamningur

Að endingu ræddu ráðherrarnir skattamál í tengslum við flutning á milli landanna og frjálsa för vinnuafls. Ráðherrunum var kynntur nýr Eyrarsundssamningur sem Svíþjóð og Danmörk hafa komð sér saman um að undirrita innan skamms. Samningnum er ætlað að vera til einföldunar fyrir fólk sem sækir vinnu þvert á landamærin sem og vinnuveitendur og skapa þannig virkari vinnumarkað á Eyrarsundssvæðinu. 

Norrænir ráðherrar efnahags- og fjármála hittast vanalega árlega til að ræða sameiginlegar áherslur á svið efnahagsmála og hvernig norrænt samstarf á því sviði getur skapað virði fyrir norrænu löndin. Næsti fundur er áætlaður á árinu 2025 þegar Finnland tekur við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.
Tengiliður