Arnhildur Pálmadóttir arkitekt – Ísland

iceland 2024
Ljósmyndari
Sonja Margrét Ólafsdóttir
Fyrir þverfaglega nálgun og áherslu á endurnýtingu byggingarefnis.

Arnhildur Pálmadóttir er tilnefnd til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

 

Með frumkvöðlahugsun sinni og þverfaglegri nálgun stuðlar Arnhildur Pálmadóttir að breytingum þegar kemur að borgarskipulagi, arkitektúr og byggingarstarfsemi. Í verkefnum sínum leggur hún mikið upp úr endurnýtingu byggingarefnis og sjálfbærni og framtíðarnýtingu bygginga.

Arnhildur leggur áherslu á samþættingu og að finna lausnir með langtímanotkun að leiðarljósi. Hún stýrir stofu danska arkitekta- og nýsköpunarfyrirtækisins Lendager á Íslandi en fyrirtækið sérhæfir sig í sjálfbærni og hringrásarhugsun í mannvirkjagerð. Jafnframt leggur hún stund á kennslu við hönnunardeild Listaháskóla Íslands ásamt því að hafa birt greinar um nýsköpun, tækni og sjálfbærni í hönnun og byggingarstarfsemi og haldið fyrirlestra á því sviði.

Arnhildur hefur hannað byggingar með kolefnisspor sem er aðeins helmingur af því sem hefðbundnar byggingar hafa. Hún hefur skoðað hvort nota megi hraunrennsli til þess að móta byggingar, byggir ákvarðanir á öllum stigum hönnunar á vistferilsgreiningum, hefur hringrásarhugsun að leiðarljósi við hönnun og leitast við að skapa tækifæri til sjálfbærari lífsstíls.