Cecilia Damström

Ljósmyndari
Ville Juurikkala
Cecilia Damström tónskáld er tilnefnd til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir verkið „Extinctions“ (2023).

Rökstuðningur

Cecilia Damström (f. 1988) hefur skapað sér nafn sem fjölhæft og snjallt tónskáld sem hefur ýmsa tjáningarmáta tónlistarinnar á valdi sínu, allt frá kammer- og söngtónlist til barnaópera og verka fyrir sinfóníuhljómsveitir. 

Rauður þráður í tónsmíðum Damström er nálgun hennar á heiminn í kringum okkur og á hið sára og óþægilega í samtímanum. Hún hefur samið langa röð verka um loftslagsvandann (Requiem for our Earth, ICE, Fretus, Wasteland, Permafrost) sem náði hápunkti í verkinu Extinctions, sem var samið fyrir sinfóníuhljómsveit finnska ríkisútvarpsins og frumflutt í janúar 2024.

Efni verksins er uppruni lífsins, þróun tegundanna og útrýming þeirra á stórum skala. Bygging verksins fylgir þróuninni undanfarin 600 milljón ár eftir tímalínu þar sem ein mínúta tónlistar samsvarar 30 milljónum ára í sögu alheimsins. Nútími okkar, mannöldin, varir í 0,02 sekúndur.

Innan hins víðfeðma og fjölbreytilega höfundarverks Damström má telja Extinctions til nútímalegri verka tónskáldsins. Hún nýtir möguleika sinfóníuhljómsveitarinnar af mikilli leikni og skapar á 20 mínútum fágaða og heillandi heild með skírskotun til lengri tíma.

Sú aðferð tónskáldsins að nálgast loftslagsvandann á grundvelli vísindanna sprettur af djúpri, siðferðislegri sannfæringu og það hvernig hún rýnir í umhverfi okkar og samfélag er óaðskiljanlegt frá heimsmynd hennar og ímynd sem tónskálds. Damström hefur verið nefnd Greta Thunberg tónlistarinnar, og ekki að ástæðulausu.