EKOenergy - Finnland

EKOenergy
Ljósmyndari
EKOenergy
Umhverfismerki sem auðveldar neytendum og atvinnurekendum að velja endurnýjanlega og sjálfbæra orku.

Þegar rætt er um sjálfbæra framleiðslu og neyslu komum við ávallt að spurningunni um það hversu sjálfbær sú orka sé sem þörf er á. Endurnýjanleg orka eins og sólarorka, vindorka, vatnsorka, lífgas og jarðhiti ásamt úrgangsstraumum lífmassa þarfnast mun færri náttúruauðlinda og veldur minni úrgangi og minni losun gróðurhúsalofttegunda en jarðefnaeldsneyti.

 

EKOenergy er alþjóðlegt og óhagnaðardrifið umhverfismerki sem Náttúruverndarsamband Finnlands stofnaði í samstarfi við alþjóðleg umhverfissamtök. Umhverfismerkið auðveldar neytendum og fyrirtækjum að velja orkugjafa sem eru 100% endurnýjanlegir og vernda líffræðilega fjölbreytni.

 

Til að öðlast umhverfismerkinguna þarf að standast strangar sjálfbærnikröfur sem viðurkenndar eru af 45 umhverfissamtökum. Tekjur af leyfisgjöldum renna í tvo sjóði; annars vegar loftslagssjóð fyrir þróunarlönd en hins vegar umhverfissjóð fyrir ár á Norðurlöndum. Verkefni sem eru fjármögnuð skulu uppfylla heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun.

 

Sérstaða EKOenergy felst í áherslum á alþjóðlega nálgun. Markmiðið er að efla markaði fyrir endurnýjanlega orkugjafa um allan heim. Þó að EKOenergy starfi á alþjóðavettvangi er áherslan áfram á starfsemi á Norðurlöndum. EKOenergy-merkið er veitt vatnsorkuverum í Noregi og Finnlandi, jarðhitaorkuverum á Íslandi og vindorkuverum í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi.