ETC Bygg – Svíþjóð

Nominees SE ETC
Ljósmyndari
Emanuel Hendal
Fyrirtæki þar sem heildstæð hugsun ræður för og hugað er að félagslegri, efnahagslegri og umhverfislegri sjálfbærni.

ETC Bygg er tilnefnt til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

 

ETC Bygg er fyrirtæki sem byggir inngildandi og loftslagsvænt leiguhúsnæði og kostnaðarhagkvæm smáhýsi. Hingað til hefur fyrirtækið reist tvö leiguhús í Västerås, þrjú í Växjö og nú stendur yfir stærra verkefni í Malmö þar sem verklok eru áætluð 2024/2025.

Um er að ræða svokölluð lágorkuhús þar sem hiti er geymdur og endurnýttur í húsinu. Loftslagsvænt byggingarefni á borð við timbur og hálm er valið af kostgæfni og ný efni í húsgrunna eru prófuð með það fyrir augum að lágmarka kolefnissporið. Á þaki húsanna eru sólarrafhlöður þar sem raforka er geymd til þess að íbúar geti verið sjálfum sér nægir um orku.

Á svölum leiguíbúðanna eru gróðurhús undir matjurtarækt og smáhýsunum fylgja sameiginlegir matjurtagarðar. Byggingarfyrirtækið býður upp á moltukassa til þess að umbreyta matarúrgangi í næringsríka mold ásamt því að veita íbúum ráðgjöf um garðrækt. Ýtt er undir deilihagkerfið með því að bjóða upp á rafbílaflota, reiðhjól til láns og verkfæri til samnýtingar.

Fyrirtækið er óhagnaðardrifið og viðskipta- og fjárhagslíkan fasteignafélagsins byggist á crowd-funding sem skilar sér í heildstæðri nálgun þar sem hugað er að félagslegri, umhverfislegri og efnahagslegri sjálfbærni.

Hægt er að nálgast allar teikningar og gögn endurgjaldslaust á vefsvæði ETC Bygg til þess að öllum gefist kostur á að fá innblástur og læra af því sem fyrirtækinu hefur tekist eða mistekist. Gagnsæi og þekkingarmiðlun eru grundvallarþættir og hægt væri að taka upp hið inngildandi líkan ETC Bygg þegar kemur að sjálfbærri byggingarstarfsemi víðar jafnt innan sem utan Norðurlanda.