Helle Helle

Helle Helle
Ljósmyndari
Mikkel Carl
Helle Helle: de. Skáldsaga, Rosinante, 2018. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Rökstuðningur:

Helle Helle er einstök rödd í dönskum bókmenntum. Höfundarverk hennar einkennist af knöppum og lágstemmdum stíl þar sem því er lýst sem ber fyrir augu og eyru. Helle Helle (f. 1965) steig fyrst fram á ritvöllinn með skáldsögunni Eksempel på liv. Síðan hefur hún hlotið fjölda verðlauna og eignast stóran hóp dyggra lesenda. Bækur hennar hafa verið þýddar á 20 tungumál. Hún hefur skrifað bæði skáldsögur og smásögur sem allar innihalda nýstárlegar tilraunir með tungumál og form. de er engin undantekning, en þar er á ferðinni skáldsaga skrifuð í hreinni nútíð. Um leið er hún sú átakanlegasta og viðkvæmasta af öllum bókum höfundar. de er jafnvel enn betur heppnuð en fyrri bækur Helle Helle.

Frásögnin í hreinni nútíð er stílbragð sem slær að vissu leyti á frest þeim dauða sem vofir yfir í skáldsögunni. Við hittum fyrir 16 ára stúlku og móður hennar sem er greind með banvænan sjúkdóm. Móðir og dóttir tala þó alls ekki um sjúkdóminn eða sorgina heldur allt mögulegt annað, þær hlæja dátt og lifa lífinu næstum eins og sjúkdómurinn sé ekki til staðar. En bara næstum því. Gegnum alla þessa kristaltæru sögu liggur undirtónn sorgar og missis sem virðist sterkari en í fyrri verkum höfundar. Kannski vegna þess að sorgin hefur nú verið innlimuð í málfræðina ef svo má segja. Með frásagnarhætti í nútíð getur dóttirin lifað í núinu með móður sinni án þess að missa hana. Þannig geymir sagan einnig ástríka lýsingu á móður sem spjallar um kaffi, mat og dagleg störf í stað sorgar og veikinda:

„Á þriðja degi sest dúfnapar á þakið. (…) Þegar mamma hennar kemur heim úr versluninni liggur hún undir ullarteppinu og skelfur. Hún er að horfa á tennisleik með hljóðið skrúfað niður. Mamma hennar lagar til í gluggakistunni: Nei, sjá hvað þær kurra þarna uppi. Er til kaffi? segir hún.“

Samband mæðgnanna er hlýlegt og umhyggjusamt, en í allri sinni blíðu birtist það lesandanum einnig sem brothætt og viðkvæmt þegar hann verður vitni að öllu sem þær tala ekki um. Þegar Nete, vinkona aðalpersónunnar, spyr hana hvers vegna hún sé ekki sorgmædd, svarar hún einfaldlega: „Af því.“ Í beinskeyttum línum á borð við þessa birtist hið ósagða og glettna.

Í skáldsögunni er 51 stuttur kafli og tímaramminn spannar eitt ár. Bæði dóttir og móðir eru nafnlausar, sem gerir að verkum að þær renna af og til saman í textanum. Titillinn de vísar til þeirra tveggja, sameinaðrar heildar, sem brátt verður ei meir. Um leið vísar persónufornafnið de einnig til annarra bæjarbúa og skólafélaga dótturinnar: Vinum, kærustum og partíum er lýst með áþreifanlegum hætti og í smáatriðum svo að lesandinn sér atburði og aðstæður ljóslifandi fyrir sér. Sagan fer í hring og að henni lokinni situr lesandinn eftir með tilfinningu fyrir hringrás. Þetta er hringrás tímans og ársins en einnig hringrás endurtekningar, sem skapar rými fyrir von. Þannig er „af því“ úr munni aðalpersónunnar bæði innantóm skýring og beinskeytt samtenging. Það er nefnilega í samtengingunum, í tengslunum, sem við finnum bæði ástina og sársaukann í verkum Helle Helle. Og kannski er það þess vegna sem svo mikil blíða einkennir samband mæðgnanna.

de geymir ýmsar vísanir til fyrri bóka höfundar, einkum Rødby-Puttgarden frá 2005, sem líkt og de gerist í bænum Rødby á 9. áratug síðustu aldar og segir frá tveimur systrum sem hafa nýverið misst móður sína. Líkt og í fyrri verkum sínum lýsir Helle Helle því sem persónurnar segja og gera, en ekki tilfinningum þeirra, og einmitt með því að sýna lesendum aðeins toppinn á ísjakanum tekst henni að gefa einstaklega nákvæma mynd af tilfinningum fólks og tengslum þess.

Med de lýsir Helle Helle hjartnæmu sambandi mæðgna í skugga sorgar og dauða á hátt sem er bæði fallegur, átakanlegur og frumlegur. Í skáldsögunni er sammannlegri sorg komið í orð: Sorginni yfir því að við munum missa foreldra okkar. de er skörp og skínandi skáldsaga, í senn skemmtileg og óumræðilega sorgleg. Skáldsagan er hátindur höfundarverks Helle Helle til þessa og hátindur í dönskum prósaskrifum þessa áratugar.