Lars Sund

Lars Sund
Ljósmyndari
Laurent Denimal
Lars Sund: Där musiken började. Skáldsaga. Förlaget, 2018. Tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Rökstuðningur:

Skáldsaga Lars Sund, Där musiken började, er annar hluti þríleiks þar sem sögusviðið er strandbærinn Jakobstad í hinum sænskumælandi Austurbotni Finnlands. Um leið er á ferðinni sjálfstætt verk sem hægt er að njóta án þess að hafa lesið fyrsta hluta þríleiksins, Tre systrar och en berättare, sem kom út 2014.

 

Í Där musiken började bregður Sund upp mynd af breiðu galleríi persóna sem hverfist um örlög þriggja systra, en einkum eru börn systranna í brennidepli. Sagan spannar allt frá sjötta áratug 20. aldar fram til ársins 1990. Systurnar hafa allar villst út fyrir sína stétt en þó með ólíkum hætti: Ulla-Maj er kennslukona, síðar skólastjóri og þingkona, Maggi er gift áfengissjúkum kaupsýslumanni að nafni Göran og er annt um orðspor fjölskyldunnar, Iris er samkynhneigð leikkona.

 

Ulla-Maj og Maggi eru fyrirferðarmiklar persónur í sögunni, dregnar vönduðum og skýrum dráttum. Aðalpersóna bókarinnar er þó Alf Holm, sonur Ullu-Maj og bifvélavirkjans Elis. Hann hefur „fullkomið tóneyra“, en metnaður móður hans, sem hefur ákveðið að hann eigi að verða kennari, kemur í veg fyrir að hann taki þátt í hinu blómlega tónlistarlífi bæjarins. Skólinn er mikilvægur í viðleitni Ullu-Maj til félagslegra metorða en sonur hennar er á báðum áttum.

 

Eitt meginþema bókarinnar snýr að því hvernig Alf leitar leiða til að sýna hvað í honum býr, annars vegar með því að endurnýja tengslin við Ameríku barnæsku sinnar og hinsvegar gegnum ástina. Hér gegna dætur Maggi, þær Neppe, Hajje og Bambi, einnig mikilvægu hlutverki. Sögumaðurinn sem hefur sterka nærveru gegnum alla bókina, bekkjarfélagi Alfs, lætur lítið fyrir sér fara en deilir þó ýmsu úr eigin fortíð og viðhorfum með lesandanum. Sem jafnaldri Alfs tilheyrir hann einnig fyrstu kynslóð unglinga með tilheyrandi popptónlist, tækninýjungum, alþjóðavæðingu, auknu kynferðislegu frjálsræði og uppreisn.

 

Sund fer leikandi létt á milli tímabila og staða og í þessu verki sem hann segir sjálfur að sé „sinfónískt að uppbyggingu“, með fjórum hlutum og niðurlagskafla, lýsir hann ekki aðeins örlögum einstakra persóna heldur samfélags- og sögulegri þróun í þjóðfélagi. Hér er því lýst hvernig ferðalag milli stétta heldur áfram hjá nýrri kynslóð, en með öðrum skilyrðum og formerkjum en í kynslóð foreldranna, og einnig því hvernig tíðarandi og umhverfi geta bæði haft hamlandi og frelsandi áhrif.

 

Sund á sér fáa líka í samtímabókmenntum á sænsku hvað varðar ímyndunarafl og orðsnilld. Hann er sannur kvæðamaður sem kann þá list að spinna alla þræði saman í afbragðsgóða heild. Nánast án þess að eftir því sé tekið og að því er virðist áreynslulaust tekst Sund að skapa heilan heim í smækkaðri mynd, aldarfarslýsingu á seinni hluta 20. aldar með þeirri framtíðarsýn og tilraunagleði sem einkenndi tímabilið.

 

Där musiken började er tíunda bók Lars Sund. Sund er fæddur 1953 en frumraun hans, ljóðabókin Ögonblick, kom út 1974. Því næst skrifaði hann tvær lykilsögur sem vöktu mikla athygli, Natten är ännu ung og Vinterhamn, en sló í gegn svo um munaði með Siklax-þríleiknum svonefnda; Colorado Avenue, Lanthandlerskans son og Eriks bok. Gerðar voru kvikmyndir eftir fyrstu tveimur hlutum þríleiksins. Sund er einnig fuglafræðingur og hefur gefið út ritgerðasafn á því sviði sem ber heitið En morgontrött fågelskådares bekännelser.

 

Lars Sund hefur meðal annars hlotið Runebergverðlaunin 1992 og Pro Finlandia-medalíuna 2014.