Laufey

Ljósmyndari
Gemma Warren
Djasstónlistarkonan Laufey er tilnefnd til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir plötuna „Bewitched“ (2023).

Rökstuðningur

Laufey (f. 1999) skaust hratt upp á stjörnuhimininn og hefur hrifið íslensku þjóðina og heiminn allan með tónlist þar sem djasshefð eftirstríðsáranna er sett í nútímabúning með áreynslulausum hætti. 

 

Laufey hefur fengið langmesta spilun alls íslensks tónlistarfólks á tónlistarveitunni Spotify og með náttúrulegum hæfileikum sínum, mikilli vinnusemi og skilvirkri, nútímalegri markaðssetningu hefur hún heillað tónlistarunnendur af ýmsum kynslóðum og með alls konar tónlistarsmekk. Laufey, sem nú er 25 ára, hefur lokið námi frá Berklee og virðist vera jafn vel heima í kvöldkjól, leikandi á selló með sinfóníuhljómsveit, og að búa til hressileg myndbönd á TikTok ásamt indí-stjörnunni Beabadoobee. 

 

Hún hefur sinnt dagskrárgerð hjá BBC, komið fram í þáttum Jimmy Fallon og Tiny Desk og hlaut nýverið Grammy-verðlaun fyrir nýjasta verk sitt, aðra plötuna í fullri lengd sem nefnist Bewitched.

 

Þar heldur hún áfram – af æ meira sjálfsöryggi – að móta sína einstöku nálgun á sígildan djass. Djúp og tímalaus rödd hennar hefur róandi áhrif og tónlistin inniheldur vísanir í bæði gamlar djasskempur og stjörnur á borð við Amy Winehouse og Norah Jones, sem eru þekktar fyrir nútímalega nálgun á tónlist fyrri tíma.