Rune Glerup

Ljósmyndari
Caroline Bittencourt
Rune Glerup tónskáld er tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir fiðlukonsertinn „Om lys og lethed“ (2022).

Rökstuðningur

Fiðlukonsertinn Om lys og lethed, sem saminn var fyrir Isabelle Faust og Sinfóníuhljómsveit danska ríkisútvarpsins, markar hingað til hápunkt á löngum ferli tónskáldsins Rune Glerup (f. 1981), sem hefur starfað bæði í heimalandinu Danmörku og utan þess. Hann hefur meðal annars unnið með Ensemble Intercontemporain, SWR Symphonie-orchester í Þýskalandi, Sinfóníuhljómsveit danska ríkisútvarpsins (DR), Sinfóníuhljómsveit Óðinsvéa í Danmörku, London Sinfonietta, Diotima-kvartettinum og Trio con Brio Copenhagen. 

 

Tónlist hans hefur ávallt verið heillandi skýr og staðið saman af takmörkuðum efnivið sem unnið er með á knappan hátt, meðal annars með því að ýmist víkka efnið út eða þrengja það. Tónlist hans hefur alltaf minnt á arkitektúr á vissan hátt. Í henni er eitthvað kyrrstætt og fallegt, sem reglulega nær hröðu tempói þar sem margt gerist samtímis. Snilldarlegur hljóðfæraleikur Glerup og hárfínar tímasetningar gera að verkum að honum tekst ávallt að varðveita ákefðina í tónlistinni. 

 

Með þessum fiðlukonsert hefur Rune Glerup stigið inn á nostalgískari lendur en áður hafa heyrst í tónlist hans. Í verkinu birtist viðkvæmni sem myndar fagra andstöðu við hinn svalari, hlutlæga hljóðheim Glerup. Með fiðlukonsert sínum hefur Rune Glerup skapað einstakt og fallegt verk sem hefur alla burði til að verða sígilt á meðal verka fyrir sinfóníuhljómsveit og fiðlu.