Som du ser meg (I Belong) - Noregur

Som du ser meg (Norway)

Ágrip

Hvað gerist þegar fólk hættir að hegða sér eins og það á að gera?

Hjúkrunarkona lendir í deilu á vinnustað vegna þess að hún talar ensku þegar hún verður taugaóstyrk. Þýðandi efast um heilindi sín þegar hún er beðin um að þýða bók sem hún hefur ekki trú á. Eldri kona og dóttir hennar finnst þær niðurlægðar þegar ættingi býðst til að gefa þeim eina milljón króna.

Rökstuðningur dómnefndar

Níu einstaklingar fara í vinnu, gera málamiðlanir eða fá tilboð sem þeir geta hvorki tekið né hafnað. Höfundur les inn á hljóðbók skáldsöguna sem einstaklingarnir tilheyra. Þetta er ramminn um Som du ser meg, eftir Dag Johan Haugerud, tilgerðarlaus, opin og þekkjanleg frásögn af ruglingslegri tilveru mannsins og virðuleika. Myndin er falleg mósaík ólíkrar lífsreynslu, túlkuð með umhyggju af leikurunum og síuð í gegnum einstaka athyglisgáfu Hagerud. Niðurstaðan er bæði fyndin og viðkvæm, sár og ögrandi. Norðmenn tilnefna því Som du ser meg í leikstjórn Dag Johan Haugerud.

Um myndina

Dag Johan Haugerud skoðar í stuttmyndum og skáldsögum sínum mannlega hegðun á sérstakan hátt. Markmið hans með fyrstu kvikmynd sinni í fullri lengd er að sýna atvik sem gerast daglega og virðast sumum ekki mikilvæg en geta virst öðrum stórmál. Hún fjallar um tilvistarleg vandamál sem allir geta átt von á í daglegu lífi, um hvernig litið er á fólk sem bregst við heilindum og tilfinningum sem vandræðafólk í þjóðfélagi þar sem ætlast er til að allir hagi sér á rökrænan hátt.

Som du ser meg var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu norsku kvikmyndahátíðinni í Haugasundi 2012 þar sem hún hlaut  Viaplay verðlaunin sem besta norræna kvikmyndin. Hún var valin besta norska kvikmyndin í fullri lengd árið 2013 af samtökum norskra gagnrýnenda og hlaut fimm Cannon verðlaun frá norskum kvikmyndagerðarsamtökum á alþjóðlegu Kosmorama kvikmyndahátíðinni í Þrándheimi fyrir bestu leikstjórn, besta handrit, besta nýliða (Haugerud), bestu klippingu (Jens Christian Fodstad) og bestu leikkonu í aukahlutverki (Andrea Bræin Hovig).

Som du ser meg var einnig ein af þremur norskum  myndum sem Norðmenn tilnefndu til Óskarsverðlaunanna 2013 sem besta erlenda kvikmynd.

Leikstjóri, Dag Johan Haugerud

Dag Johan Haugerud, sem er fæddur árið 1964, er menntaður bókasafnsfræðingur, en nam einnig kvikmynda- og leikshúsfræði og skapandi skrif við háskólana í Ósló og Stokkhólmi. Hann hefur unnið sem blaðamaður og handritshöfundur fyrir ýmsa dans- og leikhúshópa. Hann hefur einnig gefið út þrjár skáldsögur.

Fyrsta myndin sem hann leikstýrði var stuttmyndin 16 levende klisjeer árið 1998, og síðan hefur hann leikstýrt fjölda stuttmynda svo sem Ekko av Ibsen: Trøbbel sem hlaut Honorary Mention viðurkenningu á Nordisk Panorama árið 2006. Som du ser meg er fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd.

Næsta kvikmyndaverkefni hans Children (vinnutitill) mun fjalla um það að vera foreldri og stöðu og hlutverk barna í Noregi samtímans. 

Framleiðandi, Yngve Sæther

Sæther fæddist árið 1964 og vann í mörg ár hjá kvikmyndafélögum og í kvikmyndahúsum. Árið 2001 gekk hann til liðs við framleiðslufyrirtækið Motlys, sem framleiðandi og þróunarstjóri. Frumraun Sæthers var kvikmyndin Maðurinn sem unni Yngvari  sem byggð er á skáldsögu Tore Renberg. Myndin hlaut 12 verðlaun, þar á meðal fern Amanda verðlaun og var tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2008. Framleiðandinn hefur gert tvær aðrar myndir sem byggja á Jarle Klepp,  sögupersónu Renbergs: Jeg reiser alene (2011) og Kompani Orheim  sem tilnefnd var til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Sæther framleiddi einnig Oslo, 31. augusteftir Joachim Trier, sem hlaut alþjóðlega viðurkenningu (tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2011) og Buzz Aldrin, hvor ble det av deg i alt mylderet? sjónvarpsþáttröð fyrir norska ríkissjónvarpið. Sæther var einnig meðframleiðandi sænsku heimildamyndarinnar Armbryterskan från Ensamheten.

Eftir að hafa framleitt nokkrar stuttmyndir fyrir vin sinn Dag Johan Haugerud, hjálpaði Sæther honum að gera Som du ser meg, fyrstu mynd hans í fullri lengd. Ný rómantísk gamanmynd eftir Stian Kristensen er næsta mynd sem frumsýnd verður í Noregi. Þá eru einnig tvær kvikmyndir í fullri lengd í burðarliðnum. Wait Blink eftir Yngvild Sve Flikke -gamanmynd um leitina að sjálfum sér- og Inventory fyrsta myndin sem Sæther leikstýrir, en hann mun leikstýra henni ásamt hinum alþjóðlega þekkta rithöfundi Erlend Loe. Myndin er svört kómedía byggð á handriti Loe, um 65 ára gamla konu sem gerir upp líf sitt og þjóðfélag samtímans.

Yngve Sæther var tilnefndur sem „Producer on the Move“ í Cannes 2009.

Helstu framleiðsluupplýsingar

Upprunalegur titill: Som du ser meg

Leikstjóri: Dag Johan Haugerud

Handritshöfundur: Dag Johan Haugerud

Framleiðandi: Yngve Sæther

Aðalhlutverk: Laila Goody, Ragnhild Hilt, Andrea Bræin Hovig

Framleiðslufyrirtæki: Motlys AS

Lengd: 118 mín

Dreifing innanlands: Norsk Filmdistribusjon

Alþjóðleg dreifing: K5 International

Fulltrúar í dómnefnd

Silje Riise Næss, Britt Sørensen, Kalle Løchen