Tilnefndir 2012

„Verðlaunin eru veitt fyrir tónverk samið af núlifandi tónskáldi. Ekki eru settar reglur um tegund tónlistar, en skilyrði er, að verkið standist miklar listrænar kröfur og að það teljist vera nýstárlegt innan sinnar tegundar tónlistar“.

Danmörk

Illustrationer I-IV  / Else Marie Pade

Else Marie Pade (1924) var meðal þeirra fyrstu í heiminum til að semja „konkret” og raftónlist. Á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar samdi hún, í nánu samstarfi við tæknimenn hjá danska ríkisútvarpinu, mikinn fjölda  brautryðjandi verka. Verk hennar „En dagpå Dyrehavsbakken“ og „Syv Cirkler“ eru annars vegar fyrsta konkret verkið og hins vegar fyrsta raftónlistarverkið sem samið er í Danmörku. Undanfarinn áratug hafa verk Pade hlotið mikla athygli tónlistarmanna og tónskálda og hefur hún meðal annars fengið heiðurslaun listamanna (ævilaun) frá Statens Kunstfond í Danmörku.

4 Rooms  / Jacob Kirkegaard

Jacob Kirkegaard (1975) fær efnivið í eftirtektarverð verk sín frá „konkret” tónlist  með notkun umhverfishljóða. Með aðstoð óhefðbundinna aðferða og hljóðupptökubúnaðar, fangar hann sjaldgæf og hingað til óþekkt hljóð frá fjölmörgum stöðum í heiminum, t.d. hverum, norðurljósum, syngjandi sandi úr Óman eyðimörkinni, kjarnorkuveri og jafnvel hljóðum úr innra eyra mannsins. Í verkinu „4 Rooms“ notar Kirkegaard hljóð úr fjórum yfirgefnum rýmum á hinu geislavirka bannsvæði í Tjernóbyl í Úkraínu; sundlaug, kirkju, fyrirlestrarsal og fimleikasal. Rýmum, sem áður hýstu mannlega virkni og líf, en voru yfirgefin í skyndi í kjölfar slyssins árið 1986.

Finland

“Vie” / Jukka Tiensuu

Fæddur árið 1948. Harpsíkordleikari, píanóleikari og stjórnandi með fjölbreytta verkefnaskrá sem nær frá eldri verkum til nútímatónlistar. Hefur unnið sem spunalistamaður með alþjóðlega þekktum tónlistarmönnum og haldið tónleika í flestum Evrópuríkjum, Bandaríkjunum og Asíu. Hann hefur haldið námskeið í barrokk tónlist og tónlist okkar tíma. Tónverk hans eru allt frá einleiksverkum fyrir kantele hljóðfærið (finnskt strengjahljóðfæri notað í þjóðlagatónlist) til kór- og hljómsveitarverka, frá verkum fyrir harmónikkuhljómsveitir til raftónlistar og tölvutónlistar. Hann hefur starfað í hljóðupptökuverum og rannsóknamiðstöðvum víða um heim.

Red earth and rain / Eero Hämeenniemi

Fæddur í Valkeakoski í Finnlandi árið 1951. Lauk menntaskólaprófi árið 1969 frá  South West High School, Minneapolis, Minnesota. Nam indversk fræði, heimspeki og tónfræði við háskólann í Helsinki frá árinu 1971, en ákvað að einbeita sér að tónsmíðum. Lauk prófi í tónsmíðum frá Síbelíusar akademíunni árið 1978, eftir að hafa lokið prófi í tónlistarkenningum árið 1976. Stundaði framhaldsnám í Kraká í Póllandi árið 1979, í Siena á Ítalíu árið 1979 og í Bandaríkjunum 1980-1981 sem Fullbright styrkhafi. Hann stundaði nám hjá Joseph Schwantner við Eastman School of Music og numið klassíska tamílska og inverska menningu (með hléum 1999-2006) hjá prófessor I. Sundaramurti, fyrrverandi aðtoðarrektor Tanjore Tamil University.

Færeyjar​​​​​​​

Askur & Embla – The first day may be / Kári Bæk

Kári Bæk (f. 1950) er virkur í færeysku tónlistarlífi, bæði sem kórstjóri og tónlistarmaður, með óbó sem hljóðfæri, og – sérstaklega undanfarin 20 ár – einnig sem tónskáld. Fyrstu verk hans voru samin fyrir kór, en síðan hefur hann einnig samið tónlist fyrir einleikshljóðfæri og hljómsveitir af ýmsum stærðum. Árið 2011 samdi hann tónlistarævintýri, „Veiða vind“, fyrir sinfóníuhljómsveit. Mörg verka Kára hafa verið frumflutt af færeyskum og norrænum kórum og hljómsveitum eins og Mpiri, Tarira og Aldubáran, oft í tengslum við tónlistarhátíðina Summartónar. Hluti verka hans hafa verið gefin út á geisladiskum með þessum hópum. 
Askur og Embla voru gerð úr tveimur trjám sem Óðinn, Vili og Vé fundu á sjávarströndu Þeir skáru út mannsmyndir í trén og Óðinn gaf þeim önd og líf, Vili gaf þeim vit og hreyfingu en Vé gaf þeim ásjónu, mál, heyrn og sjón.

Ísland

Dreaming  / Anna Thorvaldsdóttir

Anna Þorvaldsdóttir tónskáld vinnur með umfangsmikla tónbyggingu og tónlist hennar endurspeglar oft flæðandi hljóðheim með dularfullu ljóðrænu andrúmslofti. Tónlist Önnu er oft flutt í Evrópu og Bandaríkjunum og hafa verk hennar verið tilnefnd til og hlotið mörg verðlaun, s.s. Íslensku tónlistarverðlaunin, Prix Europa, the annual International Rostrum of Composers og  the International Music Prize for Excellence in Composition. Hún er með MA og PhD gráðu frá Kaliforníuháskóla í San Diego. Fyrsta hljómplata Önnu, „Rhízōma”, sem inniheldur Dreymi fyrir hljómsveit og kom út þann 25. október 2011 hjá Bandarísku hljómplötuútgáfunni Innova Recordings, hefur fengið mjög góðar viðtökur.

Flutter for flute, orchestra and field recordings of insects / Þuríður Jónsdóttir

Þuríður Jónsdóttir tónskáld og flautuleikari stundaði tónlistarnám á Íslandi og Ítalíu. Hún lauk námi í flautuleik, tónsmíðum og raftónlist frá tónlistarháskólanum í Bologna og stundaði framhaldsnám hjá Donatoni og A. Solbiati. Í verkum sínum vinnur hún oft með tengslin milli órafmagnaðra og rafmagnaðra hljóða, t.d. í verkum sem hún hefur skrifað fyrir einleiksflautu og rafmögnuð hljóð, fyrir kór, hljómsveit, í óperum, hljóðinnsetningum og fyrir útvarpsleikrit. Hún hefur unnið í samstarfi við hljómsveitir eins og Caput, Adapter, FontanaMix og EnsebleMa. Tónlist hennar hefur verið flutt á hátíðum eins og Présences, Musica Nova, ISCM og NMD. Hún hefur samið verk fyrir ýmsar stofnanir og tónlistarmenn eins og franska ríkisútvarpið, þýska ríkisútvarpið og Nomus.

Noregur

Vent Litt Lenger / Ole-Henrik Moe

Ole-Henrik Moe er fæddur í Ósló árið 1966. Verk Ole-Henrik Moe Vent Litt Lenger ögrar einu af helgustu véum sígildrar tónlistar, stengjakvartettinum. Verkið er skrifað fyrir Ardittikvartetten, sem talinn er stofnun í nútímatónlistarflutningi. Moe nýtir sér uppbyggingu fiðlunnar, hljóðfæris sem hann leikur einnig á sjálfur. Hann leitar í innviðum fiðlunnar eftir blæbrigðaríkum hljómum á mörkum hljóma og hávaða, mismunandi þéttleika og víxlverkun hins hreina og grófa. Hljómagangarnir geta virkað sem spuni, en eru nákvæmlega skrifaðir oft í mörgum samhliða tónskeiðum. En hversu nákvæmlega skilgreindur sem þessi hljóðheimur er, þá er hin mannlega snerting alltaf til staðar. Tónlistinni hefur verið lýst sem „post-spektral hávaðatónlist“ og bæði í eigin flutningi og samstarfi við listamenn sameinar tónskáldið nokkuð sem er nákvæmlega skilgreint/skrifað, hefbundinni tónlist og raf-hávaðatónlistarhefð.

Stort sett  / Magne Hegdal

Fæddur í Gjerdrum í Noregi 1944. Stundaði nám í tónsmíðum hjá Conrad Baden og Finn Mortensen og lauk námi frá tónlistarháskólanum í Noregi árið 1972. „Stort sett“ fyrir fiðlu og píanó eftir Magne Hegdal sýnir margvíslega afstöðu til tónsmíða: frá milliliðalausri tjáningu tilfinninga til tónlistar þar sem tónskáldið er meira viðtakandi en semjandi. Í því sem í fyrstu virðist tólftóna hljóðheimur, koma fram tilvísanir í aðra tónlist - Beethoven, Schumann, Cage, Grieg, hefðbundna tónlist. Þessar tilvísanir birtast sem sterkar ábendingar fremur en fjarlægar tilvitnanir. Að  muna, safna saman og uppgötva á nýtt verður mikilvægt, bæði hér og í löngu köflunum sem eru frumsamdir í heild sinni. Hjá Hegdal hefur tilviljun sem verkfæri náin tengsl við náttúruupplifun eða að horfa á landslag. „Stort sett“ þýðir allt í senn  gleitt sjónarhorn, tímasetningu (oft, en ekki alltaf) og samstæða eða safn. Það síðastnefnda getur vísað til annarra verka sem veita ólíka sýn á það að semja tónlist, eins og Sechs Sammlungen eftir CPE Bach eða A set of pieces eftir Ives.

Svíþjóð

Golden Dances of the Pharaohs / Victoria Borisova-Ollas

Victoria Borisova-Ollas fæddist 1969 í Rússlandi en hefur búið í Svíþjóð um árabil. Hún hlaut fyrst alþjóðlega viðurkenningu fyrir verk sitt Wings of the Wind sem hlaut önnur verðlaun í Masterprize keppninni árið 1998: gagnrýnendur voru hástemmdir og lýstu verki hennar sem „leiftrandi hljóð ljóðlist.“ Hún notar nýstárlegt og nýskapandi safn hljóða til að skapa fögur og kraftmikil hljómrými, sem geta fangað eyru bæði reyndra hlustenda og þeirra sem reynsluminni eru, en þó forvitnir. Victoria hóf tónlistarnám sitt á unga aldri. Að loknu námi í Central School of Music í Moskvu og síðan við hinn þekkta Tjækovskí tónlistarháskóla stundaði hún framhaldsnám við tónlistarháskólann í Málmey í Svíþjóð og Royal College of Music í London.

Eleven Gates / Anders Hillborg

Anders Hillborg er fæddur í Stokkhólmi árið 1954. Hann hóf tónlistariðkun sína með kórsöng og tók einnig þátt í ýmsum tegundum spunatónlistar. Frá 1976 til 1982 stundaði hann nám í kontrapunkti, tónsmíðum og raftónlist við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi, en meðal kennara hans voru Gunnar Bucht, Lars-Erik Rosell, Arne Mellnäs og Pär Lindgren. Brian Ferneyhough, sem var margoft gestafyrirlesari við tónlistarháskólann, hafði einnig mikil áhrif á hann. Að tímabundnum kennarastörfum frátöldum hefur Hillborg verið sjálfstætt starfandi tónskáld frá 1982. Hann semur mjög fjölbreytta tónlist allt frá hljómsveitarverkum, kór- og kammertónlist til kvikmynda- og popptónlistar.