Huga þarf að úrgangi í tengslum við sjálfbæra mannvirkjagerð

04.09.19 | Fréttir
hållbart byggande
Ljósmyndari
Scanpix
Þörfin á nýjum húsum og mannvirkjum vex stöðugt, en skuggahlið byggingarstarfseminnar er losun gróðurhúsalofttegunda og stækkandi sorpfjöll. Af öllum byggingarúrgangi fer aðeins nokkur hluti til endurvinnslu enda þótt stjórnvöld hafi sett sér metnaðarfull markmið á þessu sviði. Norræna sjálfbærninefndin leggur til að komið verði upp stafrænu verkfæri í því skyni að kortleggja byggingarúrgang á Norðurlöndum.

Byggingarúrgangur er því sem næst fjórðungur alls sorps sem nú hleðst upp í Evrópu, og þriðjungur allrar koltvísýringslosunar í heiminum á rætur sínar að rekja til mannvirkjagerðar. Markmið Evrópusambandsins á sviði umhverfismála kveða á um að endurvinna skuli 70 hundraðshluta alls byggingarúrgangs árið 2020, en fyrir liggur að það markmið næst ekki.

Nú þurfum við á hagnýtum verkfærum að halda

– Það er prýðilegt að setja sér metnaðarfull markmið, en núna liggur okkur mest á að fá í hendur verkfæri til að vinna að þeim, segir Anna-Kaisa Ikonen, þingkona frá Finnlandi, sem situr í sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs. 


Á septemberfundi nefndarinnar í Helsinki hinn 3. september náðist samkomulag um ýmsar tillögur um loftslagsvæna byggingarstarfsemi og endurvinnslu úrgangs. 
 

Norræn byggingaráðstefna

Auk stafræns verkfæris til að kortleggja byggingarúrgang vill nefndin að ráðist verði í aðgerðir til að hvetja byggingarverktaka til að draga úr koltvísýringslosun og auka sjálfbæra notkun trjáviðar sem byggingarefnis. 
Nefndin leggur einnig til að haldin verði byggingaráðstefna með þátttöku fulltrúa bæði stjórnmálaflokka og byggingarfyrirtækja á Norðurlöndum.

Áhersla á timburmannvirki

Meðal þess sem þegar er unnið að er samræming byggingarreglna og byggingarstaðla á Norðurlöndum, auk verkefnis til þriggja ára sem snýst um að auka notkun timburs við gerð stórra mannvirkja á Norðurlöndum. Til þess að byggingarstarfsemi á Norðurlöndum geti orðið umhverfisvæn er þó nauðsynlegt að nýta hringrás byggingarefna í miklu meira mæli en nú er gert og auka endurvinnslu.

– Okkur vantar áreiðanlegar upplýsingar um hversu mikið er tiltækt af endurvinnanlegum efnum – og þar er um að ræða verkefni sem tilvalið er að sinna á vettvangi Norðurlandasamstarfsins, segir Anna-Kaisa Ikonen.