Nýtt hlaðvarp: Svona er baráttan gegn kynferðislegri áreitni í menningarlífi Norðurlanda

03.09.20 | Fréttir
Ny poddserie om #metoo
Ljósmyndari
Nordisk kulturkontakt

Í fyrsta þáttinn af Metoo-hlaðvarpinu mæta Jukka Maarianvaara, umboðsmaður jafnréttismála í Finnlandi, og Lottaliina Pokkinen, yfirmaður lagamálefna hjá Musikerförbundet, samtökum tónlistarmanna í Finnlandi 

Hver er staðan á Norðurlöndum, nú þegar þrjú ár eru liðin frá því að metoo-hreyfingin fór á flug um allan heim? Menningargeirinn var afar áberandi í umræðunni – á hann enn við sama vanda að stríða og þá? Í nýju hlaðvarpi segja rithöfundar, kynjafræðingar, tónlistarmenn og ungir aðgerðarsinnar hvaðanæva að á Norðurlöndum frá því starfi sem unnið er til að vinna bug á kynferðislegri áreitni.

Í fyrsta þættinum af sjö heyrum við Jukka Maarianvaara, umboðsmann jafnréttismála, og Lottaliinu Pokkinen, yfirmann hjá Musikerförbundet í Finnlandi, ræða hvaða þýðingu aukin vitund og þekking um kynferðislegt ofbeldi hefur haft fyrir menningarstarfsemina.

„Margt lausráðið starfsfólk óttast að vera álitið til vandræða ef það talar um kynferðislega áreitni og ég held að við þurfum á þessum opinberu málum að halda til að okkur miði eitthvað áfram,“ segir Lottaliina Pokkinen, yfirmaður Musikerförbundet í Finnlandi.

Feminískur aktívismi og pólitískar aðgerðir

Lærke Reddersen, danskur leikstjóri og leikskáld, ræðir feminískan aktívisma við hina finnlandssænsku Ninu Nyman, doktorsnema í kynjafræði í háskólanum í Åbo. Þau fara yfir hvernig aðgerðarsinnar, fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafa brugðist við í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð.

Fjölmiðlar, ungt fólk og metoo

Ebba Witt-Brattström, rithöfundur og prófessor í norrænum bókmenntum er gestur hlaðvarpsins í fjórða þætti ásamt Nicolas von Kraemer, sagnfræðingi og dálkahöfundi. Þau greina frá afstöðu sinni til fjölmiðlaumræðunnar um #metoo.

Hvernig kom metoo-bylgjan ungu fólki og nýgræðingum á vinnumarkaði fyrir sjónir? Sjónarmið ungs fólks er til umræðu hjá jafnréttissérfræðingnum Malin Gustavsson, Tönju Rönnberg frá barnahjálpinni Rädda barnen og Nicholas Kujala, forseta Norðurlandaráðs æskunnar (UNR).

Menningarmálaráðherrarnir tóku ákvörðun um að leggja áherslu á #metoo

Metoo-hlaðvarpið er framhald á aðgerðum norrænu menningarmálaráðherranna vegna #metoo í menningargeiranum og tengist málþingunum um #metoo sem efnt var til í öllum norrænu löndunum árið 2019. Norræna menningargáttin (NKK) er framleiðandi hlaðvarpsins sem horfir út yfir Norðurlönd frá sjónarhóli sínum í Finnlandi.

„Það er til fyrirmyndar að norrænu menningarmálaráðherrarnir tóku á dagskrá málefnið um kynferðislega áreitni í menningarstarfseminni og litu það alvarlegum augum.  Ég er mjög ánægð með að hægt sé að halda umræðunni um kynferðislega áreitni lifandi með hlaðvarpinu,“ segir Ola Kellgrein, forstjóri Norrænu menningargáttarinnar (NKK).

„Markmiðið með hlaðvarpinu er að kynna sjónarmið ungs fólks og vekja athygli á framþróun í baráttunni gegn kynferðislegri áreitni en einnig að veita gagnrýnisröddum rými og gera sýnileg þau vandamál sem enn er við að etja.“

Þættirnir í Metoo-hlaðvarpinu:

  • 1. þáttur: Staðan í Finnlandi og tónlistargeirinn (fluttur 3. september)
  • 2. þáttur: Staðan í Danmörku og feminískur aktívismi (fluttur 10. september)
  • 3. þáttur: Staðan á Álandseyjum og barna- og ungmennamenning (fluttur 17. september)
  • 4. þáttur: Umræðan um MeToo (fluttur 24. september)
  • 5. þáttur: Staðan í Noregi og Svíþjóð og hlutverk karla (fluttur síðar)
  • 6. þáttur: Ungt og nýútskrifað fólk í sviðslistum (fluttur síðar)
  • 7. þáttur: Staðan á Íslandi, samfélagsmiðlar og málssóknir (fluttur síðar)

Hlaðvarpið er á skandinavísku og þáttarstjóri er Madeleine Dunderlin frá Norrænu menningargáttinni (NKK).

 

Tengiliður