Karlstadsyfirlýsingin – norrænt samstarf um viðbúnað og óbrigðult fæðuöryggi og skógnýtingu

18.06.24 | Yfirlýsing
Yfirlýsingin var samþykkt af norrænum ráðherrum fiskveiða og fiskeldis, landbúnaðar, matvæla og skógræktar hinn 19. júní 2024 á árlegum ráðherrafundi þeirra (MR-FJLS) undir formennsku Svíþjóðar.

Upplýsingar

Yfirlýsing okkar byggist á:

  • Hagasamstarfinu og Hagayfirlýsingunum tveimur frá 2009 og 2013
  • Norrænu samstöðuyfirlýsingunni frá 2011 
  • Yfirlýsingu forsætisráðherranna um dýpkað norrænt samstarf á sviði aðfangaöryggis og annars viðbúnaðar frá 2021
  • Yfirlýsingu norrænu samstarfsráðherranna um samstarf á krísutímum frá 2022

Við norrænir ráðherrar fiskveiða og fiskeldis, landbúnaðar, matvæla og skógræktar (MR-FJLS) erum sammála um að efla viðbúnað, stöðugleika og viðnámsþrótt á málefnasviðum okkar og aðfangakeðjum. 

Málaflokkar okkar skipta höfuðmáli fyrir aðfangaöryggi á Norðurlöndum. Málefnasviðin snúa að framleiðslu og dreifingu matvæla og þar leynast möguleikar til að auka framleiðslu á orkuhrávörum á krísutímum. Drykkjarvatn er einnig mikilvægur þáttur í fæðuöryggi.

Öfgakennt veðurfar á undanförnum árum, kórónaveirufaraldurinn og stríðið í Úkraínu sýna mikilvægi öflugs samstarfs yfir landamæri á Norðurlöndum svo koma megi í veg fyrir og takast á við kreppur í síbreytilegu pólitísku landslagi. Að byggja samþætt og traust Norðurlönd krefst sameiginlegs átaks við að draga úr veikleikum og auka viðnámsþrótt okkar og viðbúnað svo við getum mætt nýjum og núverandi áskorunum. 

 

Með NATO-aðild allra norrænu ríkjanna gefst okkur nú tækifæri til að auka viðnámsþol á Norðurlöndum. Við sjáum góð tækifæri fyrir sameiginlegar æfingar í kringum sviðsmyndir sem krefjast tafarlausra krísuviðbragða og munum styðja við aðgerðir innan málasviða okkar sem geta komið til viðbótar við þá vinnu sem fer fram innan ESB og NATO hvað varðar almannavarnir og fæðuöryggi. Fæðuöryggi er á okkar borði og því teljum við grundvallaratriði að hægt sé að verja aðfangakeðjur okkar gegn fjölþáttaógnum og tryggja gistiríkjastuðning svo uppfylla megi væntingar innan svæðisins og NATO hvað þetta varðar. 

Viðskipti mega ekki falla niður á krísutímum eigi að tryggja afhendingaröryggi á öllum sviðum. Það liggur þó einkum utan við sjálft FJLS-samstarfið. Því ætti að koma á fót óformlegum vettvangi þar sem hlutaðeigandi aðilar innan málefnasviða FJLS geta komið saman til að miðla reynslu og til samstarfs um aðfangaöryggi þvert á landamæri.

 

Styrkur okkar liggur í samvinnunni. Þungamiðjan í samstarfinu er það samráð og sú miðlun reynslu sem fram fer í gegnum norrænan samstarfsvettvang. Óbrigðult fæðuöryggi fyrir komandi kynslóðir leggur ríkari kröfur á herðar norræna samstarfsins. Innan ramma þess og almennt við stefnumótun landanna á sviði landbúnaðar- og sjávarútvegs er þörf á að koma á skýrara þverfaglegu samstarfi um krísuástand til að styðja við það samspil á milli ólíkra málasviða FJLS sem þegar hefur verið skilgreint. Á sama hátt þarf samstarf við einkaaðila að eiga sér stað snemma í ferlinu. Við verðum að taka tillit til þess að aðstæður og sjónarmið aðildarríkja Norrænu ráðherranefndarinnar geta verið mismunandi

 

Við viljum styrkja og dýpka sameiginlegan þekkingargrunn í því skyni að efla Norðurlönd með auknum viðnámsþrótti á málefnasviðum okkar og aðfangakeðjum. Við, norrænu sjávarútvegs-, landbúnaðar-, matvæla- og skógræktarráðherrarnir (MR-FJLS), munum:

 

  • Auka samstarf til að styrkja sameiginlegan þekkingargrunn okkar og skilning á því hvernig við viðhöldum fæðuöryggi á Norðurlöndum. Með því að kortleggja viðskipti á friðartímum innan Norðurlanda og skilgreina lykilaðföng fyrir fæðuöryggi munum við í sameiningu stuðla að skilvirkum og traustum aðfangakeðjum með aðgangi að mikilvægum íhlutavörum. 
  • Vinna saman á grundvelli mismunandi sjónarmiða aðildarríkjanna að því að skapa sameiginlegt yfirlit yfir það hvernig hægt er að framleiða, flytja og geyma lykilaðföng í matvælakeðjum á Norðurlöndum í því skyni að auka framboð á matvælum, fóðri og drykkjarvatni á krísutímum. Í þessu samhengi munum við skiptast á reynslu af fjölbreytni í viðskiptakeðjum með það að markmiði að berja í hugsanlega bresti.
  • Þróa samstarf milli opinbera geirans og einkageirans til að auka viðbúnað innan málefnasviða FJLS.
  • Stuðla að skilvirkum og kerfisbundnum upplýsingaskiptum sem auka möguleikana á skjótum aðgerðum til að draga úr áhrifum hættuástands. Við viljum einnig auka norræn upplýsingaskipti um löggjöf, skipulag og aðferðir svo skapa megi skilyrði fyrir sameiginlegum aðgerðum við hvers konar hættu eða ógnvænlega atburði.
  • Efla núverandi samstarf um viðbúnað vegna hættuástands á sviði landbúnaðar og skóga þannig að við búum okkur betur undir öfgakennt veðurfar og aðrar kreppur af völdum loftslagsbreytinga, ekki síst með því að tryggja varðveislu erfðaauðlinda og greiða fyrir rannsóknum og ræktun plantna á þessu sviði.
  • Þróa greiningarlíkön fyrir fiskveiðar og fiskeldi sem gerir kleift að gera veikleikagreiningar og samanburð innan Norðurlanda.
  • Minna á að fiskveiðar Norðurlanda eru mikilvægur hluti fæðuöflunar sem fer fram á sameiginlegum hafsvæðum og að löndin eru háð áframhaldandi sjálfbærum fiskveiðumÞörf er á auknu samstarfi um stjórnun og aðgengi til að tryggja stöðugleika bæði fiskistofna og fiskiskipaflota landanna.
  • Halda áfram samstarfi um þá mikilvægu starfsemi rannsóknastofa sem við höfum á Norðurlöndum og er forsenda mikils matvælaöryggis og lýðheilsu.
  • Þróa enn frekar það starf sem fer fram  innan Einnar heilsu (e. One Health) og á sviði dýralækninga til að auka getu okkar til að koma í veg fyrir og draga úr afleiðingum sýklalyfjaónæmra baktería, uppkomu mannsmitanlegra dýrasjúkdóma (súna) og annarra alvarlegra dýrasjúkdóma.
  • Vinna að fullnægjandi framboði vinnuafls með viðeigandi menntun og færni auk þess að stuðla að heilbrigðu vinnuumhverfi og góðum aðbúnaði á vinnustað. Hæfni á nýsköpunarsviðum og þróun nýrra nytjaplantna verður áfram mikilvægur þáttur í vinnunni við að tryggja nægilegt fæðuframboð.
  • Standa vörð um vinnu NordGenmikilvægum líffræðilegum innviðum í norrænu samstarfi um sjálfbæra varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda í því skyni að tryggja aðgang að fæðu og öðrum grundvallarvörum á krísutímum og við umtalsverðar breytingar á framleiðsluskilyrðum.
  • Vernda ræktað og ræktanlegt land og tryggja fullnægjandi aðgang að fæðu og fóðri fyrir fiskeldi og búfjárrækt svo að ekki verði matvæla- og orkuskortur á Norðurlöndum.
  • Stuðla að sjálfbærum og heilbrigðum matvælakerfum og vinna að samlegðaráhrifum milli markmiðanna um sjálfbærni og viðbúnað, ekki síst með loftslagsaðlögun og eflingu erfðafræðilegrar fjölbreytni innan málefnasviða okkar.
  • Samræma framtíðarverkefni og fyrri samstarfsverkefni, svo sem Hanaholmen-verkefnið, og nýta þau góðu samstarfsnet og þær samstarfsgáttir sem fyrir eru innan norræna samstarfsins og skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar. Mörg þessara viðfangsefna eru þverfagleg og krefjast góðs samstarfs við norræna kollega á öðrum málefnasviðum.

Með þessari yfirlýsingu viljum við sýna metnað okkar í norrænu viðbúnaðarsamstarfi á sviði fiskveiða og fiskeldis, landbúnaðar, matvæla og skógræktar, þar sem tekið er tillit til opinberra stefnumiða hvers lands. Þetta endurspeglast einnig í samstarfsáætlun MR-FJLS 2025-2030 sem við samþykktum í dag og í aðdraganda sameiginlegrar starfsáætlunar 2025-2027. 

 

Peter Kullgren

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Cecilie Myrseth

Dennis Holm

Jacob Jensen

Magnus Heunicke

Jan Christian Vestre

Jesper Josefsson

Kalistat Lund

Kim Kielsen

Geir Pollestad

Høgni Hoydal

Sari Essayah

Karen Ellemann

Tengiliður