Finnskt ökuskírteini

Ajokortti Suomessa
Ljósmyndari
Oliur on Unsplash
Á þessari síðu eru upplýsingar um það hversu lengi þú getur ekið bíl í Finnlandi með ökuskírteini frá öðru norrænu landi. Einnig er fjallað um það að sækja sér ökuréttindi í Finnlandi og endurnýja þau og um það að skipta ökuskírteini frá öðru norrænu landi út fyrir finnskt ökuskírteini.

Þú getur ekki ekið bíl í Finnlandi án þess að hafa gilt ökuskírteini. Ökuskírteini sem gefið er út í Svíþjóð, Noregi, Danmörku eða á Íslandi nægir til að mega aka bíl í Finnlandi en um ökuskírteini frá Færeyjum og Grænlandi gilda vissar takmarkanir sem hægt er að kynna sér nánar á þessari síðu.

Ef þú býrð í Finnlandi getur þú, að vissum skilyrðum uppfylltum, skipt ökuskírteini þínu út fyrir finnskt ökuskírteini. Þú getur þó aðeins verið haft ökuskírteini frá einu ESB-landi í einu.

Erlent ökuskírteini í Finnlandi

Ökuskírteini sem gefið er út í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, á Íslandi eða öðrum löndum ESB og EES veitir ökuréttindi í Finnlandi í þeim ökuréttindaflokkum sem tilgreindir eru á skírteininu. Ekki þarf að skipta slíku ökuskírteini út fyrir finnskt ökuskírteini.

Ökuskírteini sem gefið er út í Færeyjum eða á Grænlandi veitir ökuréttindi í Finnlandi í eitt ár frá því að handhafi skírteinisins kemur til landsins. Eftir þann tíma þarf að skipta því út fyrir finnskt ökuskírteini.

Ef þú hefur varanlega búsetu í Finnlandi og týnir erlendu ökuskírteini þínu, því er stolið eða það skemmist, þá þarftu að sækja um finnskt ökuskírteini í staðinn.

Nánari upplýsingar eru hér fyrir neðan undir yfirskriftinni Að skipta erlendu ökuskírteini út fyrir finnskt ökuskírteini, og einnig á vefnum Ajokortti-info.

Að skipta erlendu ökuskírteini út fyrir finnskt ökuskírteini

Ef þú vilt getur þú skipt ökuskírteini frá Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Íslandi eða öðru landi ESB og EES út fyrir sambærilegt finnskt ökuskírteini án þess að endurtaka ökuréttindapróf,að því gefnu að þú hafir fasta búsetu í Finnlandi eða hafir stundað nám í landinu í að minnsta kosti sex mánuði. Ekki er hægt að skipta út bráðabirgðaskírteini. Hægt er að fá ökuskírteini skipt út hjá Ajovarma.

Ef þú vilt skipta ökuskírteini frá Færeyjum eða Grænlandi út fyrir finnskt ökuskírteini þarft þú að taka finnskt ökuréttindapróf. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Ajokortti-info, í hlutanum um ökuskírteini frá löndum öðrum en ESB- eða EES-löndum eða samningsríkjum.

Finnskt ökuskírteini

Skilyrði fyrir því að fá finnskt ökuskírteini eru mismunandi eftir ökuréttindaflokkum.

Hvernig ökuskírteini þarft þú?

Í Finnlandi eru notaðir sömu ökuréttindaflokkar og viðurkenndir eru annars staðar í Evrópu, sem veita réttindi til að aka ýmiss konar ökutækjum. Til að aka fólksbíl þarf til dæmis ökuskírteini fyrir B-flokk og til að aka mótorhjóli þarf skírteini fyrir flokk A, ýmist A1 eða A2 eftir stærð hjólsins. Nánari upplýsingar um ökuréttindaflokka eru á vefnum Ajokortti-info.

Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að fá finnskt ökuskírteini?

Þú þarft að hafa varanlega búsetu í Finnlandi og uppfylla önnur skilyrði fyrir því að fá finnskt ökuskírteini. Ef þú kemur til náms í finnskum háskóla og vilt fá finnskt ökuskírteini getur þú sótt um ökuskírteinisleyfi eftir að hafa stundað nám í Finnlandi í að minnsta kosti sex mánuði. 

Til að geta fengið finnskt ökuskírteini þarf undantekningalaust að fá ökuskírteinisleyfi og þreyta ökupróf, sem skiptist í skriflegt og verklegt próf. Fyrir marga ökuréttindaflokka er auk þess nauðsynlegt að sækja ökutíma áður en ökupróf er tekið. 

Mismunandi aldurstakmark gildir fyrir ökuskírteinisleyfi og ökupróf í mismunandi ökuréttindaflokkum. Til dæmis er hægt að sækja um ökuskírteinisleyfi fyrir skellinöðru 14 ára og taka ökuprófið 15 ára. Hægt er að sækja um ökuskírteinisleyfi fyrir fólksbíl 16 ára í fyrsta lagi og taka ökuprófið 18 ára, eða 17 ára með sérstakri undanþáguheimild.

Einnig getur þurft að framvísa læknisvottorði til að fá ökuskírteinisleyfi eða endurnýja ökuskírteini. Ef þú hefur verið svipt(ur) ökuréttindum í Finnlandi eða öðru landi innan ESB eða EES, hvort sem er ævilangt eða tímabundið, getur þú ekki fengið ökuskírteinisleyfi í Finnlandi. Nánari upplýsingar eru á vefnum Ajokortti-Info.

Að taka ökupróf í Finnlandi

Hyggist þú þreyta ökupróf í Finnlandi þarftu að sækja ökutíma í ökuskóla eða hjá öðrum aðila með kennsluleyfi. Nánari upplýsingar eru á upplýsingasíðunni Ajokortti-info.

Nánari upplýsingar

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna