Félags- og heilbrigðisráðherrar Norðurlanda ræða viðfangsefni tengd fólksflutningum

26.04.16 | Fréttir
Ráðherrar félags- og heilbrigðismála í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Færeyjum og á Íslandi, Álandseyjum og Grænlandi funda í Helsinki miðvikudaginn 27. apríl. Finnsku ráðherrarnir Hanna Mäntylä, sem fer með félags- og heilbrigðismál, og Juhan Rehula, fjölskyldu og umönnunarráðherra, leggja áherslu á þverfaglegt samstarf innan stjórnsýslunnar.

„Það er sérlega mikilvægt að þjónusta konur, börn og aðra hópa sem standa höllum fæti,“ segir Hanna Mäntylä.

„Til að aðlögunin geti tekist vel þarf að vinna saman á mörgum mismunandi sviðum. Við verðum að horfa á heildarmyndina,“ segir Juha Rehula.

Fundur ráðherranna í Helsinki 27. apríl næstkomandi er þáttur í formennsku Finna í Norrænu ráðherranefndinni.

Skipst á upplýsingum og góðum starfsháttum

Tilangur fundarins er að ræða málin og skiptast á upplýsingum og góðum starfsháttum í norrænu löndunum á sviði félagsmála- og heilbrigðisþjónustu fyrir hælisleitendur. Á fundinum verður einnig gefin út sameiginleg yfirlýsing um samstarf á sviði lýðheilsumála sem miðar að því að draga úr ójöfnuði í heilsufari.

Félags- og heilbrigðisþjónusta fyrir hælisleitendur og innflytjendur hefur vakið umræðu í hópi norrænu ráðherranna. Næstum 250 þúsund manns sóttu um hæli á Norðurlöndum árið 2015 og í tengslum við það þurfti félagsmála- og heilbrigðiskerfið að glíma við ýmis úrlausnarefni.

Sameiginleg viðfangsefni Norðurlanda

Þau viðfangsefni sem norrænu löndin glíma við í sameiningu á sviði félagsmála- og heilbrigðisþjónustu eru meðal annars heilbrigðiseftirlit fyrir hælislitendur, smitsjúkdómar og bólusetningar, börn sem koma einsömul í hælisleit og félagsleg þjónusta, sérstaklega fyrir börn, gamalt fólk og einstaklinga með fötlun.

Öll norrænu löndin hafa innleitt skimun vegna smitsjúkdóma flóttamanna og hælisleitenda.

Norðurlöndin starfa nú saman að aðlögun flóttamanna og innflytjenda, meðal annars í tengslum við norrænu styrktaráætlunina. Hlutverk Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði aðlögunar hefur einnig verið eflt.