Forsætisnefnd Norðurlandaráðs: Endurnýja ber Helsingforssamninginn og þörf er á norrænni nefnd um varnar- og öryggismál

25.06.24 | Fréttir
Militärövining
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Síðan í fyrrasumar hefur starfshópur á vegum Norðurlandarás unnið að því að kortleggja þörfina á breytingum á Helsingforssamningnum. Á sumarfundi sínum sem haldinn var á Íslandi þann 25. júní fjallaði forsætisnefndin um tillögur hópsins en jafnframt fjallaði nefndin um tillögu um norræna varnar- og öryggismálanefnd.

Forsætisnefnd ákvað að beina tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna um að uppfæra Helsingforssamninginn. Gert er ráð fyrir að þingmenn Norðurlandaráðs greiði atkvæði um tillöguna á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í október. Starfshópurinn leggur til að Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ríkisstjórnanna á Norðurlöndum að sett verði á fót norræn nefnd til þess að vinna beinar tillögur að uppfærslu á Helsingforssamningnum.

Nýjar áskoranir og tækifæri

Starfshópurinn leggur til að uppfærður Helsingforssamningur innihaldi nokkur ný ákvæði um norrænt samstarf. Í núverandi samningi er til að mynda ekki minnst á loftslagsmál þótt þau séu í dag mikilvægur hluti af norrænu samstarfi. Þá telur hópurinn einnig að fjalla ætti um stjórnsýsluhindranir.

Önnur málefni sem starfshópurinn leggur til að fjallað verði um eru réttindi og inngilding barna og ungmenna, þ. á m. hlutverk Norðurlandaráðs æskunnar, almannaöryggi, viðbúnaðarmál og samfélagsöryggi auk varnar- og öryggismála. Að sögn hópsins er mikilvægt að Helsingforssamningurinn endurspegli þær áskoranir og þau tækifæri sem Norðurlönd standa frammi fyrir.

„Við verðum að uppfæra Helsingforssamninginn til þess að hann sé í takti við tímann. Að öðrum kosti er hætta á að norrænt samstarf tapi gildi sínu að einhverju leyti,“ segir Oddný G. Harðardóttir, varaforseti Norðurlandaráðs.

Færeyjar, Grænland og Álandseyjar vilja verða fullgildir aðilar að Helsingforssamningnum og þar með norrænu samstarfi. Til þess að koma til móts við þá ósk leggur starfshópurinn til að ríkisstjórnir norrænu landanna verði hvattar til þess að gera löndunum þremur kleift að taka þátt í norrænu samstarfi af krafti.

Norræn nefnd um varnar- og öryggismál

Í formennskutíð Íslendinga hefur komið fram tillaga í Norðurlandaráði um að stofnuð verði norræn varnar- og öryggismálanefnd sem skipuð verði þingmönnum frá öllum norrænu löndunum. Rökin á bak við tillöguna eru þau að til séu margar landsnefndir, skýrslur og úttektir á sviði varnar- og öryggismála á Norðurlöndum en engin nefnd með norrænt umboð starfi á sviðinu.

„Öll norrænu löndin eru nú aðilar að NATO og samþykkt hefur verið ný framtíðarsýn fyrir NORDEFCO. Því ætti ekkert að koma í veg fyrir norræna varnar- og öryggismálanefnd. Við þurfum að vinna sameiginlegar öryggisgreiningar um mikilvæg mál á borð við þróunina á norðurskautssvæðum, í Norður-Atlantshafi og Eystrasaltinu, auk þróunar á sviði allsherjarvarna, meðal annars með áherslu á netöryggi og fjölþátta ógnir,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, forseti Norðurlandaráðs.

Umboð nefndarinnar á að koma frá norrænu varnarmálaráðherrunum fyrir hönd ríkisstjórnanna. Til þess að tryggja norrænt sjónarhorn og þinglegan stuðning skiptir sköpum að norrænu þjóðþingin eigi jafnframt sína fulltrúa í nefndinni.

Samkvæmt tillögunni á varnar- og öryggismálanefndin að fá víðtækt umboð og vera skipuð sérfræðingum og stjórnmálamönnum. Lykilþáttur starfsins getur falist í sameiginlegri greiningu á öryggismálum með tilliti til þróunarinnar á norðurskautssvæðum, í Norður-Atlantshafi og Eystrasaltinu, auk þróunar á sviði allsherjarvarna, meðal annars með áherslu á netöryggi og fjölþátta ógnir. Almennt öryggi, sameiginlegt stöðumynd og betri samræming við ákvarðanatöku í varnarmálum landanna ætti að vera stór hluti af starfinu.

„Það er gleðiefni að forsætisnefnd Norðurlandaráðs hafi ákveðið að beina tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna um öflugra norrænt samstarf á sviði varnar- og öryggismála ásamt því að endurnýja Helsingforssamninginn,“ segir Kristina Háfoss, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs.