Góðar umræður um aukið samstarf á sviði menningarmála og íþrótta

02.11.16 | Fréttir
Ministrar och parlamentariker
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Umræðuefnin spönnuðu allt frá aðlögunarmálum og íþróttum að brottfalli úr námi og „menningarlegri skólatösku“ þegar menningar- og menntamálaráðherrarnir funduðu með norrænu þekkingar- og menningarnefndinni í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.

Sanni Grahn-Laasonen, menningarmálaráðherra Finna og formaður ráðherranefndarinnar um menningarmál, lagði áherslu á að menningargeirinn léki lykilhlutverk í nýrri samstarfsáætlun um aðlögun flóttafólks og innflytjenda. Ráðstefnan „Kultur- og civilsamfund som integrationsarena“, sem fram fer í Helsinki 7.–8. desember, markar upphafið á framkvæmd áætlunarinnar. Fulltrúarnir í þekkingar- og menningarnefndinni tóku undir það að vel heppnuð aðlögun væri forgangsmál og að þar gæti menningin ráðið úrslitum.

Jorodd Asphjell formaður minnti á þá ósk nefndarinnar að verkefni menningarmálaráðherranna „Lyftistöng fyrir norrænar barna- og unglingabókmenntir“ yrði þróað áfram svo það næði til allra fimm verðlauna Norðurlandaráðs. Þingmenn Norðurlandaráðs telja að þeir geti stuðlað að aukinni þekkingu norrænna barna og ungmenna á norrænum kvikmyndum, tónlist og bókmenntum og þar með auknum tungumálaskilningi þeirra.

Til að mæta þessum vilja, efla tungumálaskilning barna og ungmenna og efla áhuga þeirra á tungu og menningu annarra landa hafa ráðherrarnir samþykkt nýja áætlun. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sagði þingmönnunum frá markmiði áætlunarinnar, sem hefur fjármagn upp á u.þ.b. 2 m.da.kr. árlega á árunum 2017 og 2018.

Þingmennirnir og ráðherrarnir ræddu einnig hvernig styrkja mætti samstarfið um það að stemma við brottfalli úr framhaldsskólum og æðri menntastofnunum. Samstarf um m.a. lyfjaeftirlit var einnig á dagskránni og Linda Cathrine Hofstad Helleland, menningarmálaráðherra Norðmanna, sagði frá því að menningarráðherrarnir hygðust bjóða til enn eins leiðtogafundar um málefni íþrótta, í framhaldi af ráðherrafundi þeirra á Svalbarða í apríl 2017.