Norðurlandaráð opnar skrifstofu í Brussel

02.11.16 | Fréttir
EU-landenes flagg
Ljósmyndari
Silje Bergum Kinsten/norden.org
Verkefni erindrekans væri að skipuleggja norræna fundi norrænu ESB-þingmannanna og starfsfólks þeirra, sem og fundi um ákveðin málefni og viðburði milli Evrópuþingmannanna og þingmanna Norðurlandaráðs.

Norðurlandaráð telur að pólitískara norrænt samstarf krefjist nærveru þar sem valdið liggur og ákvarðanir eru teknar. Þess vegna verður að gera tengsl Norðurlandaráðs við Evrópuþingið skilmerkilegri og auðveldari með beinum aðgerðum. Norræn nærvera í Evrópuþinginu og tengsl við norræna ESB-þingmenn er í hæsta máta viðeigandi.

Eðilegur fundarstaður

Skrifstofa í Brussel fyrir Norðurlandaráð gæti líka veitt norrænu ESB-þingmönnunum eðlilegan fundarstað almennt séð. Á liðnum árum hafa viðbrögðin verið gríðarlega jákvæð meðal norrænu ESB-þingmannanna þegar fulltrúar Norðurlandaráðs hafa heimsótt Evrópuþingið til þess að ræða t.d. málefni Eystrasaltsins, sýklalyfjaónæmi, sjávarútvegsmál og landbúnað.

Upphafleg tillaga flokkahóps miðjumanna var á þá leið að Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin myndu í sameiningu setja á fót skrifstofu og einn erindreka í Brussel til þess að veita norrænu samstarfi aukið pólitískt afl og vægi. Í bili mun þó aðeins Norðurlandaráð opna þar skrifstofu.

Tillagan um að opna skrifstofu í Brussel var samþykkt á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn þann 2. nóvember 2016, með 38 atkvæðum á móti 32. 

Fulltrúarnir í flokkahópi miðjumanna og flestir úr flokkahópi jafnaðarmanna greiddu atkvæði með skrifstofu í Brussel. Tveir úr flokkahópi jafnaðarmanna greiddu þó atkvæði gegn tillögunni, auk fulltrúanna í flokkahópi hægri manna, flokkahópi vinstri sósíalista og grænna og flokkahópnum Norrænu frelsi.