Norræn nefnd: Banna ber námuvinnslu á djúpsævi

25.06.24 | Fréttir
UHN sommermøde 2024 Kiruna
Ljósmyndari
norden.org

Norræna sjálfbærninefndin í heimsókn í Kiruna, nyrsta bæ Svíþjóðar, þar sem stærstu járngrýtisnámu heims er að finna.

Banna ber námuvinnslu á djúpsjávarbotni á alþjóðlegum hafsvæðum á meðan afleiðingar hennar, meðal annars umhverfislegar, hafa ekki verið rannsakaðar að fullu. Þetta er mat nefndar á vegum Norðurlandaráðs.

Að mati norrænu sjálfbærninefndarinnar ber að leggja bann við námuvinnslu á djúpsjávarbotni á alþjóðlegum hafsvæðum á meðan umhverfislegar, félagslegar og efnahagslegar afleiðingar hennar hafa ekki verið rannsakaðar að fullu. Jafnframt telur nefndin nauðsynlegt að gengið verði úr skugga um að engin neikvæð áhrif á hafsumhverfi hljótist af starfseminni áður en hægt er að heimila námugröft.

Nefndin tók þessa ákvörðun á fundi sínum í Kiruna í Svíþjóð í dag.

„Það skortir rannsóknir og þekkingu á afleiðingum námuvinnslu á djúpsævi. Það er því þörf á banni þar til við vitum meira. Um er að ræða mikilvæg búsvæði sem hafa verið ósnert í þúsundir ára og geta orðið fyrir miklu tjóni vegna námuvinnslu. Einnig er hætta á því að kolefni sem bundið er á hafsbotni losni í stórum stíl. Ef það gerist getur orðið mikil aukning á magni gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu sem getur stuðlað að frekari loftslagsbreytingum,“ segir formaður nefndarinnar, Tove Elise Madland.

Um er að ræða mikilvæg búsvæði sem hafa verið ósnert í þúsundir ára og geta orðið fyrir miklu tjóni vegna námuvinnslu.

Tove Elise Madland

Upphaflega var það flokkahópur miðjumanna í Norðurlandaráði sem lagði bannið til. Í tillögu sinni bendir hópurinn meðal annars á að fyrirtæki og ríki sem styrkja þau keppist fyrst og fremst um að finna sjaldgæfa jarðmálma á hafsbotni, þar á meðal nikkel, kóbolt, kopar og mangan.

Þeir sem tala fyrir námuvinnslu á djúphafsbotni segja að þörf sé á jarðefnum af hafsbotni vegna grænna umskipta, til dæmis til að mæta þörf á efnum í rafhlöður.

Samkvæmt tillögunni veldur námuvinnsla af þessu tagi miklu tjóni á viðkvæmum vistkerfum í sjónum sem einnig hefur áhrif á hefðbundna starfsemi á borð við fiskveiðar. Að auki skipti hafið og djúpsjávarvistkerfi sköpum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum þar sem hafið sé stærsti kolefnisgeymir heims og geymi gríðarlegt magn koldíoxíðs.

„Yfir 600 sérfræðingar úr röðum vísindafólks og stjórnmálamanna hafa varað við því að námuvinnsla á djúpsjávarbotni myndi leiða til hnignunar líffræðilegrar fjölbreytni og valda vistkerfum skaða sem væri óafturkræfur fyrir margar kynslóðir,“ segir í tillögu flokkahóps miðjumanna.

Einungis á alþjóðlegum hafsvæðum

Norræna sjálfbærninefndin undirstrikar að tillagan eigi við um starfsemi á alþjóðlegu hafsvæði. Það er Alþjóðahafsbotnsstofnunin, ISA, sem gefur út leyfi. Til þessa hefur stofnunin ekki veitt nein leyfi fyrir námuvinnslu en veitt hefur verið 31 leyfi til rannsókna.

Norðurlandaráð mun nú í heild sinni fjalla um tillöguna á þingi sínu sem haldið verður á Íslandi í október. Verði tillagan samþykkt á þinginu verður hún send áfram til norrænu ríkisstjórnanna sem tilmæli.