Samstarfsráðherrarnir ræða Evrópusambandið

01.07.16 | Fréttir
EU og Norden
Ljósmyndari
Silje Bergum Kinsten/norden.org
Tengsl Norðurlanda við Evrópusambandið voru eitt af meginviðfangsefnunum á fundi samstarfsráðherra Norðurlanda í Kaupmannahöfn 1. júlí sl. Stór hluti löggjafar á Norðurlöndum verður fyrir áhrifum af löggjöf í Evrópusambandinu og frá árinu 2016 hefur aukin athygli beinst að því hvernig ESB-löggjöf er innleidd í löndunum.

Samstarfsráðherrarnir ræddu þessi mál ítarlega á fundi sínum. Umræðan mótaðist af þeirri óvissu sem upp er komin í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um úrsögn úr Evrópusambandinu. 

Þau þrjú Norðurlandanna sem eiga aðild að Evrópusambandinu, það er að segja Danmörk, Finnland og Svíþjóð, leggja áherslu á að nú sé mikilvægt að forðast að einstök svæði innan evrópusamstarfsins móti sérstöðu. Jafnframt er þó áfram mögulegt og jafnframt mikilvægt að Norðurlönd efli samstarf sitt eins og hægt er, meðal annars hvað varðar ESB-löggjöf sem snertir mikilvæg hagsmunamál Norðurlanda.

Norðurlöndin hafa forsendur til að verða það svæði í Evrópu þar sem samþættingin er sterkust.

„Með því að gera samræmingu innleiðingar ESB-löggjafar skilvirkari getum við komið í veg fyrir að nýjar stjórnsýsluhindranir verði til innan Norðurlanda,“ segir Anne Berner, samstarfsráðherra Finnlands, sem stýrði fundi samstarfsráðherranna.

„Norðurlöndin hafa forsendur til að verða það svæði í Evrópu þar sem samþættingin er sterkust,“ bætir hún við.

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, leggur áherslu á að ráðherranefndin sé ekki sjálfstæður aðili á vettvangi ESB.

„Markmiðið er að koma augu á þau svið þar sem aukin samhæfing innan Norðurlanda getur komið einstökum löndum til góða.“