Stuðningur við Úkraínu á að vera í fyrirrúmi

25.03.14 | Fréttir
„Hættuástand í Úkraínu er Norðurlöndum, Eystrasaltsríkjum og Póllandi aukin ástæða til að efla samstarf sitt. Mikilvægt er að greiða fyrir þróun lýðræðis í Úkraínu og það má gera á ýmsum stigum,“ segir Karin Åström, forseti Norðurlandaráðs.

Á mánudag luku forseti og varaforseti Norðurlandaráðs, Karin Åström (S) og Hans Wallmark (M) frá Svíþjóð, heimsókn sinni á þjóðþing Eystrasaltsríkjanna og Póllands. Þar fóru fram viðræðufundir í því skyni að sýna löndunum stuðning vegna spennuástandsins í Úkraínu og opna á umræður um æskilegar leiðir til að styðja við lýðræðisþróun í landinu.

„Nú, við lok ferðarinnar, er okkur ljósara en nokkru sinni hversu mikilvægt samstarfið við Norðurlöndin er Eystrasaltríkjunum og Póllandi. Það samstarf getur farið fram á ýmsum stigum, hvort sem er á milli stjórnmálaafla eða á vettvangi frjálsra félagasamtaka,“ segir Karin Åström, forseti Norðurlandaráðs.

Hans Wallmark varaforseti ráðsins lagði áherslu á það á fundunum að í norrænu-baltnesku samstarfi bæri að beina sjónum að Úkraínu fremur en Rússlandi. Þetta hlaut hljómgrunn m.a. hjá formanni utanríkisnefndar lettneska þingsins, Ojārs Kalniņš.

„Þrátt fyrir atburðina á Krímskaga megum við ekki missa sjónar á þörfinni fyrir að þoka starfi þjóðþingsins í Kíev í lýðræðisátt,“ sagði Kalniņš á mánudag.

Mikilvægt að halda samræðunni gangandi

Í Póllandi hittu sænsku þingmennirnir meðal annarsWłodzimierz Cimoszewicz, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, sem nú er formaður utanríkisnefndar þingsins, og ennfremur Bogdan Borusewicz, forseta efri deildar pólska þjóðþingsins, og lögðu þeir áherslu á mikilvægi áframhaldandi stuðnings Norðurlandaráðs við samstarf ríkjanna við Eystrasaltið. Grzegorz Schetyna, formaður utanríkisnefndar neðri deildar pólska þingsins, , tók í sama streng:

„Aðkoma norrænu ríkjanna hefur mikið að segja fyrir öryggi Eystrasaltsríkjanna.“

Laine Randjärv, varaforseti eistneska þingsins og formaður Eystrasaltsríkjaráðsins, sagði miklu skipta að nágrannaríki Rússlands létu ekki ofsahræðslu eða önnur ýkt viðbrögð ná yfirhöndinni vegna núverandi ástands:

„Við finnum fyrir stuðningi Norðurlanda og erum þakklát fyrir hann.“