Þörf á markvissari aðgerðum í málefnum barna

23.06.15 | Fréttir
Penilla Gunther
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org
Norrænt samstarf þarf að leggja aukna áherslu á velferð barna og ungmenna og málefni þeim tengd. Þetta var meðal niðurstaðna á sumarfundi velferðarnefndar Norðurlandaráðs, sem fram fór í Nuuk á Grænlandi.

Leiðarstefið í starfi velferðarnefndar á árinu 2015 er andleg heilsa barna og ungmenna og tengdust mörg þeirra mála sem rædd voru á sumarfundinum því efni.

„Afar brýnt er að leggja áherslu á velferð barna og ungmenna á Norðurlöndum,“ segir formaður velferðarnefndar, Penilla Gunther. Til lengdar geta vandamál innan þessa aldurshóps leitt til atvinnuleysis, fíknivandamála og þess að einstaklingar lendi utanveltu, en slíkt hefur í för með sér gríðarlegan kostnað fyrir samfélagið. Velferðarnefndin hefur iðulega beint sjónum sínum að málefnum sem tengjast meginþema starfsins á hverju ári og nefndin hefur lengi óskað eftir því að aukin áhersla verði lögð á að sníða stjórnmálastarf að þörfum barna og ungmenna.

„Þetta er afar mikilvægur málaflokkur sem má alls ekki gleymast. Í ríkisstjórnum allra norrænu ríkjanna eru ráðherrar sem hafa málefni barna og fjölskyldna á sinni könnu. Það væri óskandi að þeir gætu átt virkara og markvissara samstarf sín á milli.“

Einn þessara ráðherra er Martha Lund Olsen, ráðherra Grænlands (Naalakkersuisoq) um jafnréttis- og velferðarmál og málefni barna. Hún hitti fulltrúa Norðurlandaráðs á fundinum í Nuuk. Lund Olsen hefur átt frumkvæði að ýmsum víðtækum aðgerðum til stuðnings þolendum kynferðisofbeldis á öllum aldri, sem gripið hefur verið til í kjölfar nýlegra kannana á umfangi þessa vanda á Grænlandi. Í dag er vitað að kynferðisofbeldi gegn börnum og ungmennum er ein helsta orsök heilsubrests og vanlíðunar í þessum aldurshópum á Grænlandi. Einnig stafar vanlíðan margra fullorðna af kynferðisofbeldi sem þeir urðu fyrir í æsku.

Velferðarnefnd og menningar- og menntamálanefnd Norðurlandaráðs ræddu afleiðingar kynferðisofbeldis í tengslum við fund sinn með Lund Olsen ráðherra og samstarfsfólki hennar.
Í tilmælum sínum til Norrænu ráðherranefndarinnar leggja nefndirnar til í sameiningu að komið verði á fót norrænu samstarfsneti milli fagsviða til að auka skilvirkni í miðlun þekkingar á kynferðisofbeldi. Svo að gagn af slíku samstarfsneti verði sem mest er ráðlegt að að því komi sálfræðingar, geðlæknar, stjórnmála- og embættisfólk, læknar og fulltrúar ákæruvalds og lögreglu frá öllum Norðurlöndunum.