Ungt fólk rýfur bannhelgi barnafátæktar

11.12.15 | Fréttir
Børn i Mjølnerparken
Ljósmyndari
norden.org/Ane Cecilie Blichfeldt
Eitt af helstu vandamálunum í baráttunni gegn fátækt í barnafjölskyldum er að fátæk börn gera sig ósýnileg vegna þess að þau skammast sín fyrir þær aðstæður sem þau búa við. Í tengslum við norrænt verkefni er nú bannhelgin rofin með því að nota myndskeið með ungu fólki sem hefur upplifað fátækt og segir frá reynslu sinni.

Norræna velferðarmiðstöðin hélt ráðstefnu í Kaupmannahöfn fyrr í þessari viku þar sem fjallað var um barnafátækt. Norræna barna- og ungmennanefndin (NORDBUK) fjármagnar verkefnið sem lið í áætlun um auka áhrif barna og ungmenna í samfélaginu.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna: Barnafátækt – Norræn ráðstefna

Einn af fyrirlesurunum á ráðstefnunni var Karin Gustavsen, fræðimaður og stjórnandi Samfundslaboratoriet í Noregi. Hún sagði frá því að samkvæmt upplýsingum frá OECD sé munurinn á fátækum og ríkum meiri nú en fyrir þrjátíu árum. Ein möguleg skýring er að fjárhagsaðstoð til barna og ungmenna sem alast upp í lágtekjufjölskyldum hefur ekki fylgt þróun neysluverðsvísitölu. Jafnframt hefur fjöldi foreldra sem standa utan vinnumarkaðarins aukist.

Mikilvægt að rjúfa bannhelgi

„þátttaka notenda í þróun þjónustu fyrir fjölskyldur sem búa við fátækt er lykilatriði, en hún er erfið viðfangs. Fátæk börn eru „ósýnilegu börnin“. Þau leyna því, og bannhelgi og skömm fylgir því að ræða um fátækt,“ sagði Gustavsen.

Norræna velferðarmiðstöðin reynir að rjúfa þessa bannhelgi með því að láta ungmennin sjálf lýsa reynslu sinni af því að alast upp í fátækt. Í samstarfi við verkefnið „Unga berättar“ á vegum Kulturskolan í Stokkhólmi og norsku samtökin „Voksne for barn“ hafa verið gerðar ýmsar myndir sem persónugera fátækt.