Birgitta Sif

Birgitta Sif
Ljósmyndari
Mál og menning
Birgitta Sif: Ólíver, 2012

Ólíver er saga um lítinn, svolítið sérstakan, einmana,en ekki óhamingjusaman, strák. Hann á „sýndarvini“ og með þeim upplifir hann spennandi ævintýri. Dag einn gerist það þó að þessir gömlu vinir eru ekki nóg. Í leit sinni að tennisbolta fer hann í ferð sem leiðir hann til nýs vinar með eiginleika sem gömlu vinirnir búa ekki yfir.

Texti bókarinnar er einfaldur og fáorður en mjög opinn fyrir túlkun og þar gegna myndirnar lykilhlutverki; þær eru unnar af mikilli umhyggju og eru innhaldsríkar og fullar af lífi og dulúð. Ferðalag Ólívers úr einsemd í vináttu úr borg í sveit er bæði hugræn og líkamleg. Á þetta er lögð áhersla með litasamsetningu og blýantsstrikum og saman mynda textinn, teikningar og litir heild og heillandi frásögn.

Meginþema bókarinnar er staða einstaklingsins í heiminum, einmanaleiki, sköpun og hamingja og er hún tileinkuð „öllum sem skera sig úr að einhverju leyti“. Þetta er fyrsta bók Birgittu Sifjar. Myndlistamaðurinn Birgitta Sif er íslensk en búsett í Bretlandi. Á síðust opnu bókarinnar hefur verið strikað yfir orðið „endir“ og undir því stendur í staðinn „upphaf“. Maður getur þar af leiðandi átt von á að ævintýri Ólívers verði fleiri.