Aldrei aftur Útey eða árásirnar í Kaupmannahöfn!

28.02.17 | Fréttir
Tólf norrænir borgarstjórar og 150 borgarstarfsmenn, sérfræðingar, fulltrúar félagasamtaka og annað fagfólk kemur saman í Kaupmannahöfn í því skyni að auka öryggi í borgum Norðurlanda. Borgarstjórar og starfsmenn hyggjast leggjast á eitt um að koma í veg fyrir fleiri árásir. Stefnt er að því að sýna sameiginlegan vilja í verki um öll Norðurlönd.

Samstarfsnetið Nordic Safe Cities skuldbindur sig til að greina jákvæð gildi sem þjóðirnar eiga sameiginleg og nýta þau til að skapa samfélög þar sem íbúarnir þurfa ekki að óttast um öryggi sitt. Stjórnmálafólk og starfsmenn í borgum Norðurlanda hyggjast bregðast við og sýna að borgir okkar eru öruggar. Samstarfsnetið mun greina bestu starfsvenjur á Norðurlöndum, endurskapa þær og aðlaga að nýjum staðháttum.

Greint verður frá fyrstu skrefunum á fundi í tilefni útgáfu handbókarinnar Nordic Safe Cities Guide sem fram fer í Ráðhúsi Kaupmannahafnar 7. mars.

Norræn stjórnvöld hafa margsinnis ítrekað að við stöndum vörð um opin og lýðræðisleg samfélög

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, er sannfærður um að þetta sé mikilvægt norrænt samstarfsverkefni í tvísýnum heimi:  

 „Viðbrögð okkar við árásunum í Ósló og á Útey 2011 voru allt önnur en árásarmaðurinn hafði vonast til. Norræn stjórnvöld hafa margsinnis lagt áherslu á að við stöndum vörð um opin og lýðræðisleg samfélög. Viku eftir árásina fyrir utan Krudttønden í Kaupmannahöfn funduðu átta norrænir ráðherrar og formuðu hugmyndina að því sem síðar varð Nordic Safe Cities.“

Í handbókinni Nordic Safe Cities Guide er greint frá bestu starfsvenjum í ýmsum borgum Norðurlanda. Útgáfuhófið er haldið Kaupmannahöfn í Danmörku að viðstöddum þeim Frank Jensen, yfirborgarstjóra Kaupmannahafnar og Dagfinni Høybråten, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar. Þá verður hleypt af stokkunum víðtæku fyrirbyggjandi átaki á Norðurlöndum gegn innrætingu ofstækis og ofbeldisfullri öfgahyggju.

Í handbókinni er sagt frá Karoline Dam sem missti son sinn Lucas í hendur ISIS-samtakanna í Sýrlandi 2014. Sonarmissirinn varð til þess að hún gekk til liðs við samtökin Sons and Daughters of the World sem aðstoða og styðja við fjölskyldur sem verða fyrir barðinu á innrætingu ofstækis.

Kristina Westerholm frá Netlögreglunni í Helsinki verður einnig viðstödd. Gestum gefst kostur á að kynna sér hvernig borgaryfirvöld í Kaupmannahöfn breyttu hverfinu Mjølnerparken með því að virkja íbúana, hvernig bráðaviðvörunarkerfi hefur verið þróað í Fredrikstad og Björgvinjarbúar beita tónlist, dansi og sagnahefð til að greiða fyrir menningarlegum samskiptum ungmenna og auka gagnkvæman skilning meðal þeirra.

Verið velkomin í Ráðhús Kaupmannahafnar 7. mars kl. 11:00–17:00.