Bann við örplasti í snyrtivörum til umræðu á þingi Norðurlandaráðs

27.10.17 | Fréttir
Karin Gaardsted
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org
Tilmæli Norðurlandaráðs um bann við örplasti í snyrtivörum verða aftur á dagskrá þegar umhverfisráðherrarnir funda ásamt sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs í Helsinki þann 1. nóvember. Þegar fyrst var fjallað um tillöguna hlaut hún stuðning ríkisstjórnanna.

Norræna sjálfbærninefndin óskar eftir pólitískri umræðu um og skýringum á að ríkisstjórnirnar telji ekki forsendur til þess að norrænu löndin gangi skrefi á undan ESB og innleiði samnorrænt bann við örplasti í snyrtivörum.

„Nefndin styður viðleitni norrænu ríkisstjórnanna til að stuðla að því að banni verði komið á á vettvangi ESB, en reynslan sýnir að það getur reynst tímafrekt að afla nægilegs stuðnings við ný ESB-verkefni. Því fleiri lönd sem ganga fremst í flokki í þessu máli, þeim mun meiri verður þrýstingurinn að grípa til aðgerða innan ESB,“ segir Suzanne Svensson (S, Svíþjóð) í flokkahópi jafnaðarmanna.

Formaður nefndarinnar, Karin Gaardsted (S, Danmörku), leggur áherslu á að norrænt bann myndi beina pólitískri athygli að vandanum í stærra samhengi, þrátt fyrir að örplast í snyrtivörum sé aðeins valdur að afar litlum hluta alls þess örplasts sem ratar út í höf og vötn.

„Nýlegar skýrslur um örplast í kranavatni hljómuðu sem viðvörunarbjalla í eyrum margra. Við erum lýðræðislega kjörnir fulltrúar og berum ábyrgð á því að stuðla að lagasetningu til verndar grunnvatni, stöðuvötnum og ám í löndum okkar. Þetta væri framkvæmanlegt að kostnaðarlausu og með víðtækum stuðningi, jafnvel innan snyrtivöruiðnaðarins. Það væri vissulega góð byrjun, en fleiri og mun flóknari verkefni bíða okkar ef við eigum að sigrast á vandanum,“ segir Karin Gaardsted.

Norræna sjálfbærninefndin og norrænu umhverfisráðherrarnir funda í finnska þinginu þann 1. nóvember kl. 12:15–13:45. Hægt er að fylgjast með umræðum á þingi Norðurlandaráðs á Twitter undir myllumerkjunum #nrsession og #nrpol.