Færeyingar fá ekki fullgilda aðild að Norðurlandaráði

29.11.16 | Fréttir
Presidiemöte i Keflavik
Ljósmyndari
Mary Gestrin
Umsókn Færeyja um fullgilda aðild að Norðurlandaráði verður ekki samþykkt. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs, sem fundaði í Keflavík á mánudag, telur að Danmörk og Færeyjar eigi að ræða málið sín á milli.

Á fundinum voru sjónarmið Færeyja kynnt af Ruth Vang, þingkonu í Norðurlandaráði og fulltrúa á Lögþingi Færeyinga. Hún er ósátt við niðurstöðu forsætisnefndar.

„Við lítum ekki á okkur sem sjálfstjórnarsvæði. Við erum þjóð. Ég veit ekki hvað við erum að gera í Norðurlandaráði ef þetta er sýn ráðsins á Færeyjar.“ 

Forseti Norðurlandaráðs, Henrik Dam Kristensen, hafði þetta að segja:

„Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana, sagði á þingi Norðurlandaráðs að ríkisstjórn Danmerkur styddi óskir sjálfstjórnarsvæðanna um öflugt hlutverk í norrænu samstarfi, svo fremi sem slíkt væri lagalega og pólitískt gerlegt og í samræmi við dönsku stjórnarskrána.“

Færeyjar sóttu um fullgilda aðild að bæði Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni. Norrænu samstarfsráðherrarnir fjölluðu um umsóknina á fundi sínum þann fyrsta nóvember og komust að þeirri niðurstöðu að ekki væri einróma samþykki fyrir því að styðja umsókn Færeyja um fullgilda aðild.

Samstarfsráðherra Danmerkur, Peter Christensen, sagði að Danmörk myndi síðar kynna tillögu sem gæti eflt þátttöku Færeyja í norrænu samstarfi.

„Við höldum áfram vinnu okkar að þessu máli. Ég hlakka til að heyra tillögu ríkisstjórnarinnar,“ segir Henrik Dam Kristensen.