Gerum frið að vörumerki Norðurlanda

04.04.17 | Fréttir
Britt Lundberg på temasessionen i Stockholm, 4 april 2017
Ljósmyndari
Mary Gestrin/norden.org
Gera ætti friðarviðræður að norrænu vörumerki og tryggja þeim mikilvægan sess í opinberu norrænu samstarfi. Þetta lagði forsætisnefnd Norðurlandaráðs til á fundi sínum í tengslum við þemaþingið í Stokkhólmi þann 3. apríl. Tillögunni er beint til norrænu ríkisstjórnanna.

Þetta gæti meðal annars orðið að veruleika ef löndin kæmu á fót sameiginlegu háskólanámi á framhaldsstigi á sviði friðarviðræðna, t.d. innan ramma Norrænu meistaranámsáætlunarinnar. Forsætisnefndin leggur einnig til að friðarviðræður verði liður í sameiginlegu átaki forsætisráðherranna til að vekja athygli á norrænum lausnum við hnattrænum áskorunum.
„Norræna ráðherranefndin hefur látið vinna greinargóðar úttektir á mörgum mikilvægum sviðum, svo sem sviðum öryggis-, heilbrigðis- og orkumála. Við teljum að vinna ætti samsvarandi úttekt á sviði friðarmála,“ segir forseti Norðurlandaráðs, Britt Lundberg.
Tillagan inniheldur ennfremur greinargerð um möguleikana á því að koma á fót skjalasafni um sáttamiðlun í einu Norðurlandanna.
Forsætisnefndin bendir sérstaklega á jákvæða reynslu af stöðu sjálfstjórnarsvæðanna á Norðurlöndum. Sama líkan má nýta annars staðar í heiminum þar sem leysa þarf snúin ágreiningsefni, skrifar forsætisnefndin í rökstuðningi sínum.
Hugmyndin að því að vekja athygli á friðarviðræðum kom upphaflega frá flokkahópi miðjumanna í Norðurlandaráði, og hefur tillagan hlotið stuðning flokkahóps vinstri sósíalista og grænna og flokkahóps hægrimanna.