Norðurlandaráð á ráðstefnu um varnarmál: Þörf er á auknu samstarfi á sviði öryggis- og varnarmála

11.09.24 | Fréttir

Lars-Christian Brask i Folketinget

Ljósmyndari
Henric Öhman

Lars-Christian Brask, formaður landsdeildar Danmerkur í Norðurlandaráði sem stóð fyrir ráðstefnunni í Kaupmannahöfn þann 11. september.


 

Mikil tækifæri eru nú til staðar í norrænu varnarmálasamstarfi og að mati Norðurlandaráðs ættu norrænu löndin að vinna enn nánar saman á sviði varnarmála, ekki síst á norðurskautssvæðinu og Eystrasaltssvæðinu. Þá er samstarf við Eystrasaltsríkin og önnur lýðræðisríki við Eystrasalt álitið mjög mikilvægt, ásamt áframhaldandi öflugum stuðningi við Úkraínu. Þetta var á meðal þess sem fram kom á hinni árlegu NORDEFCO-ráðstefnu sem landsdeild Danmerkur í Norðurlandaráði stóð fyrir á mánudag.

Tækifæri til aukins norræns og baltnesks varnarmálasamstarfs

Nú þegar öll norrænu löndin eru orðin aðilar að NATO liggur beint við að auka enn opinbert samstarf á sviði varnar- og öryggismála, bæði á milli norrænu landanna og við Eystrasaltslöndin, til þess að við getum haldið uppi alþjóðlegum reglum og viðmiðum, að mati Lars-Christians Brask, formanns dönsku landsdeildarinnar.

„Það er mikilvægt að við beinum kastljósinu bæði að áskorunum og tækifærum á sviði öryggismála, jafnt á Norðurlöndum sem í Eystrasaltslöndunum. Samstarf er nauðsynlegt til þess að við getum tekist á við utanaðkomandi ógnir,“ segir hann.

Á ráðstefnunni var einnig rætt um þær miklu fjölþáttaógnir sem nú steðja að Norðurlöndum og lögð var áhersla á mikilvægi þess að vera meðvituð um herferðir í upplýsingaóreiðu og annan þrýsting.

Hver á að gera hvað?

Á ráðstefnunni voru haldnar nokkrar pallborðsumræður um ólík málefni. Ein þeirra fjallaði um það hvernig Norðurlönd og Eystrasaltsríkin geta betur stillt saman strengi nú þegar öll löndin eru orðin aðilar að NATO.

„Þetta er í fyrsta sinn frá falli Kalmarsambandsins sem öll norrænu löndin eru í sama varnarbandalagi og geta samræmt varnir sínar,“ segir Håkon Lunde Saxi, prófessor við háskóla norska hersins.

Hann bendir á að vinnan við samhæfingu á vörnum norrænu landanna undir hatti NATO sé nú þegar hafin en að stjórnmálamenn og hernaðaryfirvöld í norrænu löndunum hafi nú tækifæri til að hafa áhrif á það hvernig við getum sem best stillt saman strengi.

„Áður fyrr gengu sum norrænu löndin út frá því að hvert land verði fyrst og fremst að geta varið sig sjálft en nú er hægt að líta á málið í svolítið stærra samhengi og skipta hlutverkum á milli landanna,“ segir hann.

Annar mikilvægur þáttur sem ræddur var laut að mikilvægi þess að fjárfesta í innviðum.

Norrænu löndin hafa nú mikla möguleika á því að samræma sig betur nú þegar við miðum öll við nokkurn vegin sömu ógnir. Það er mikilvægt að fjárfesta í innviðum til þess að gera hernum hægara um vik að fara um allt svæðið, segir Matti Pesu frá utanríkismálastofnun Finnlands.

Tillagna að vænta

Bryndís Haraldsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, tók einnig þátt í ráðstefnunni og bendir á að margar rannsóknir sýni að almenningur á Norðurlöndum líti á samstarf á sviði varnar- og öryggissmála sem einn mikilvægasta þátt norræns samstarfs.

„Við í Norðurlandaráði viljum stuðla að því að norrænt samstarf á sviði varnar- og öryggismála fái þá athygli sem almenningur hefur kallað eftir,“ segir hún.

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs vinnur nú að tillögu um uppfærslu á Helsingforssamningnum, sem kveður á um hvernig haga beri opinberu norrænu samstarfi, þar sem öryggismál verði einnig hluti af samningnum. Einnig hefur verið unnin tillaga um norræna varnarmálanefnd til að skoða hvernig bæta megi samstarfið enn frekar.