Norðurlandaráð ræðir netöryggi

13.09.17 | Fréttir
Harpa Reykjavik
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Netöryggi og stafræn tækniþróun eru á dagskránni þegar Norðurlandaráð hefur hauststörf á septemberfundum í Reykjavík. Fundirnir standa yfir í tvo daga, 19. og 20. september og meðal þeirra sem funda eru forsætisnefnd ráðsins, fagnefndir og flokkahópar.

Netöryggi verður umfjöllunarefni seinni daginn þegar Sigurður Emil Pálsson, formaður Netöryggisráðsins á Íslandi, hefur umræðuna með erindi.

Britt Lundberg, forseti Norðurlandaráðs, mun einnig fjalla um netöryggi í ávarpi sínu. Britt á von á fjörugum umræðum um málefni sem er í brennideplinum:

„Ef við lítum til þess sem er að gerast í heiminum í dag, innbrota í tölvukerfi og stórfelldra netárása, svo ekki sé minnst á ásakana um hagræðingu pólitískra kosninga, þá er afar mikilvægt að við í Norðurlandaráði gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að skapa fólki öryggi í stafrænum heimi nútímans.“

Umræðan um netöryggi er opin fjölmiðlum og fer fram í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu kl. 14:45–16 þann 20. september.

Stafræn tækniþróun ofarlega á dagskrá

Annað mikilvægt mál á dagskrá ráðsins í Reykjavík er stafræn tækniþróun. Þrjár af fjórum nefndum Norðurlandaráðs halda sameiginlegan fund þar sem ræddar verða tillögur að norrænu samstarfi á sviði stafrænnar tækni. Þar er meðal annars lagt til að Norðurlönd verði leiðandi á heimsvísu á sviði 5G-tækni og bent á mikilvægi þess að rafræn samskipti séu skilvirk hjá öllum íbúum Norðurlanda.

Septemberfundirnir marka upphaf á annasömu pólitísku hausti en hápunkturinn verður 69. þing Norðurlandaráðs sem fram fer í Helsinki í Finnlandi dagana 31. október–2. nóvember.