Norðurlöndin í fararbroddi á sviði orkuskipta

03.10.24 | Fréttir
Ljósmyndari
Regeringskansliet
Þegar Norðurlöndin vinna saman að orkulausnum án jarðefnaeldsneytis er það gott fyrir loftslagið, fyrir afhendingaröryggi og skapar um leið viðskiptatækifæri fyrir norræn fyrirtæki á heimsmarkaði þar sem sameiginlegt vörumerki landanna hefur sterka stöðu.

Svíar sem gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni buðu í dag orkumálaráðherrum hinna Norðurlandanna til Stokkhólms til að ræða sóknarfæri í norrænu samstarfi um orkumál. Megináhersla var á afhendingaröryggi en nýsköpun og nýjungar í hreinu eldsneyti voru var einnig á dagskrá fundarins. Samstarfið veitir forskot í alþjóðlegri samkeppni þar sem sameiginlega vörumerkið Norðurlönd hefur sterka stöðu. Ebba Busch, varaforsætisráðherra og orku- og atvinnuvegaráðherra Svíþjóðar bauð gesti velkomna og lagði línurnar fyrir fundinn með eftirfarandi boðskap:

 

 

Það er mikilvægt að norrænu löndin haldi áfram nánu samstarfi sínu um raforkumarkaðinn og afhendingaröryggi í orkukerfinu og um hlutverk vetnis í orkuskiptunum.

Ebba Busch, varaforsætisráðherra og orku- og atvinnuvegaráðherra Svíþjóðar

Norræna framtíðarsýnin fyrir 2030 er sýn um kolefnishlutlausan heim

„Norræna framtíðarsýnin fyrir 2030 er sýn um kolefnishlutlausan heim,“ sagði Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, í ræðu sinni á loftslagsráðstefnu SÞ, COP28. Til þess að svo geti orðið þarf heimurinn grænar lausnir og í því felst gríðarlegt tækifæri fyrir norræn fyrirtæki sem vinna af kappi að því að þróa nýstárlegar lausnir án jarðefnaeldsneytis. Norrænar lausnir munu ekki aðeins gagnast Norðurlöndum. Þær geta gagnast öllum heiminum.

Þegar Norðurlöndin vinna saman að orkulausnum án jarðefnaeldsneytis er það gott fyrir loftslagið. Um leið geta nýstárlegar lausnir á þessu sviði aukið samkeppnishæfni norrænna fyrirtækja.

Framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Karen Ellemann

Nýstárlegar vetnislausnir

Á fundinum var bent á lykilhlutverk vetnis í orkuskiptunum. Nýstárlegar vetnislausnir eru mikilvægur lykill að því að krefjandi atvinnugreinar, til dæmis í stálframleiðslu og efnaiðnaði og í samgöngum, svo sem flugsamgöngur og siglingar, geti orðið kolefnishlutlausar. Næstum fjórðungur losunar gróðurhúsalofttegunda í Evrópu kemur frá samgöngum sem er helsta orsök loftmengunar í þéttbýli og því er brýnt að finna nýjar norrænar lausnir. Dæmi um verkefni: Hydrogen from Green Surplus Energy in Isolated Areas for Sea and Land-based Transport. Verkefni sem er rekið af stofnun Norrænu ráðherranefndarinnar, Norrænum orkurannsóknum, NEF, og felst í rannsóknum á notkun rafgreiningarkerfis við framleiðslu vetnis úr grænni umframraforku í þágu rannsóknar- og viðskiptaumhverfis á Norðurlöndum.

Vetni og orkumál einnig í kastljósinu á EXPO

Á Norðurlöndum er unnið af kappi við að þróa vetnislausnir og styðja orkumálaráðherrarnir þá þróun. Norræna ráðherranefndin hyggst meðal annars beina sjónum að vetni og orkumálum í samnorrænu verkefni á næsta ári – The Nordic Pavillon – á EXPO kaupstefnunni í Japan sem er einn stærsti markaður heims. Með það fyrir augum að skapa ný sóknarfæri í viðskiptum en einnig til að hraða grænum umskiptum. 

Ný yfirlýsing orkumálaráðherranna

Á fundinum gáfu orkumálaráðherrarnir út nýja yfirlýsingu um að stefnt verði að afhendingaröryggi, orkuskiptum og nýsköpun í orkusamstarfinu í nýrri samstarfsáætlun fyrir 2025-2027 sem lögð verður fram á þingi Norðurlandaráðs á Íslandi í lok október.    

Yfirlýsing Norrænu ráðherranefndarinnar um orkumál (MR-E) 3. október 2024

Norðurlönd hafa langa reynslu af að uppbyggilegu samstarfi á sviði orkumála og þó svo að löndin séu mismunandi er um að ræða einstakt samfélag. Á fundi okkar í Stokkhólmi 3. október 2024 ræddum við stöðu orkumála nú og þær áskoranir sem framundan eru. Á tímum stríðs í Evrópu og ógna við innviði okkar gegnir afhendingaröryggi lykilhlutverki og þar hefur mikilvægi og styrkur norræns samstarfs sannað sig. Við búum við misjöfn skilyrði og misjafna forgangsröðun. Hins vegar er fjöldi áskorana og tækifæra sem er sameiginlegur löndunum og við styðjum hin sameiginlegu markmið. 

Loftslagsbreytingar krefjast þess að allir þættir samfélagsins fari í gegnum umskipti til sjálfbærari framtíðar. Um leið skiptir sköpum fyrir samkeppnishæfni og efnahagslegan vöxt Norðurlanda að viðhalda hinu mikla afhendingaröryggi og að í umskiptunum sé gætt vel að samstöðu og að neytendum. 

Grænu umskiptin fela í sér enn frekari rafvæðingu þannig að raforkunotkun mun aukast verulega. Það kallar á fjárfestingar bæði í dreifikerfi og nýrri endurnýjanlegri og annarri jarðefnaeldsneytislausri raforkuframleiðslu. Hægt er að áætla framleiðslu með líforku, kjarnorku og vatnsorku en vind- og sólaorka er sveiflukenndari og búist er við að raforkuframleiðsla með þessum orkulindum muni aukast. Því fylgir vaxandi þörf á sveigjanleika með tilliti til framleiðslu og eftirspurnar en einnig nýrrar tækni til að geyma orkuna. Jafnframt verður að haga umskiptunum og uppbyggingunni með þeim hætti að víðtæk sátt ríki meðal almennings.

Vetnis-, ammoníaks- og rafeldsneyti og ný tækni mun greiða fyrir grænum umskiptum í starfsemi sem erfitt er að rafvæða beint, svo sem í tilteknum iðngreinum og í þungaflutningum. Þetta krefst hins vegar umfangsmikillar uppbyggingar á endurnýjanlegri og annarri jarðefnaeldsneytislausri raforkuframleiðslu. Saman búum við yfir því sem til þarf á sviði rannsókna og nýsköpunar til að Norðurlönd geti áfram verið í fararbroddi í þróuninni. Í dag ræddum við hvernig við vinnum með vetni í hverju landi fyrir sig og hvernig norrænt samstarf getur stuðlað að virðisauka. 

Við viljum styrkja norrænt samstarf um orkumál og gera það markvissara og samþykktum norræna samstarfsáætlun um orkumál 2025-30 þar sem eru sett fram metnaðarfull markmið og forgangsraðað verkefnum á sviðum þar sem samstarf landanna getur tryggt betri sjálfbær orkuumskipti en löndin geta hvert fyrir sig. Almenn markmið norræns orkusamstarfs fram til 2030 eru:

-  Traust afhendingaröryggi orku til norrænna notenda og fyrirtækja.

-  Bætt staða Norðurlanda fyrir orkuskipti og nýsköpun.

-  Uppbygging enn skilvirkari og meira nýskapandi norræns orkumarkaðar.

-  Sterkari Norðurlönd í alþjóðlegu orkumálasamstarfi.

Markmiðið er öflugt orkusamstarf sem viðheldur og eflir viðnámsþrótt norrænu landanna, sjálfbærni og samkeppnisfærni og gerir þannig Norðurlöndum kleift að ná markmiðunum um að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims.