Norrænn vinnumarkaður án landamæra í 60 ár

20.05.14 | Fréttir
Språket - nyckeln till arbetslivet
Ljósmyndari
Christopher Olssøn
Þann 22. maí verða 60 ár liðin frá undirritun samnings um sameiginlegan norrænan vinnumarkað. Stefnumótun framtíðarlausna fyrir vinnumarkaðinn verður í brennidepli þessa viku, en ný skýrsla um endurskilgreiningu á norræna líkaninu verður kynnt á fimmtudag.

Atvinnutækifæri eru helsti hvati Norðurlandabúa til að flytja milli landanna eða sækja vinnu yfir landamæri, en launamunur hefur einnig haft áhrif á fólksflutninga. Fyrstu fólksflutningar í stórum stíl milli Norðurlanda voru frá Finnlandi til Svíþjóðar. Í dag setjast flestir norrænir innflytjendur að í Noregi en næstflestir í Danmörku.

Á undanförnum árum hafa rúmlega 50 þúsund Norðurlandabúar flust til norrænna nágrannalanda á hverju ári. Fjöldi þeirra sem búa í einu Norðurlandanna en sækja vinnu í öðru er allt að 70 þúsund á ári.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra Íslands og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar 2014, leggur áherslu á mikilvægi þess að líta einnig til framtíðar þegar undirritunar samningsins er minnst – stjórnsýsluhindranir séu enn til staðar:

„Draumurinn er að álíka auðvelt verði að flytja til annars norræns lands og að flytja í næstu götu.“

Ný skýrsla leggur línurnar fyrir framtíðarumræðu

Í tilefni þessara tímamóta í sögu norræns vinnumarkaðar fer fram viðamikil ráðstefna um vinnumarkaðsmál á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar í Reykjavík dagana 21. og 22. maí. Framtíðarumræðan þann 22. maí mun hverfast um skýrslu ráðherranefndarinnar, The Nordic model – challenged but capable of change, sem verður kynnt sama dag.

Skýrsluna vann hópur virtra norrænna hagfræðinga sem hefur rýnt í norræna hagsæld og tengda áhrifaþætti, þar á meðal lausnir í atvinnumálum.