Tekjumunur eykst innan og á milli svæða á Norðurlöndum - State of the Nordic Region 2024

19.06.24 | Fréttir
State of the Nordic Region 2024
Ljósmyndari
Magnus Liam Karlsson
Þótt norrænu löndin sýni merki um viðnámsþrótt og endurreisn efnahagsins standa þau frammi fyrir miklum áskorunum í tengslum við lýðfræðilegar breytingar og viðvarandi mismunar á milli svæða samkvæmt skýrslunni State of the Nordic Region 2024 sem kynnt var 19. júní.

Norðurlönd eru að ganga í gegnum miklar lýðfræðilegar breytingar. Sögulega lág fæðingartíðni og hækkandi meðalaldur skapar úrlausnarefni til langs tíma. Árið 2022 voru andlát í fyrsta sinn fleiri en fæðingar. Frjósemishlutfall á Norðurlöndum er komið undir það sem þarf til að viðhalda fólksfjölda. Norrænu löndin standa því frammi fyrir fólksfækkun, sérstaklega á landsbyggðinni. Finnland sker sig einkum úr varðandi lága frjósemi og barnleysi.

Jákvæður flutningsjöfnuður vegur upp á móti þessari niðursveifla og er nú það sem helst ýtir undir fólksfjölgun. Árið 2022 var mikil aukning á alþjóðlegum fólksflutningum á Norðurlöndum þegar 212.400 nýir íbúar bættust við sem var nánast þreföldun miðað við árið 2020. Aukinn fjöldi innflytjenda gerir Norðurlönd að margþættara svæði en áður. 

Sem dæmi má nefna að í Svíþjóð er viðvarandi fólksfjölgun sem rekja má til fólksflutninga. Hlutfall íbúa sem eru af erlendu bergi brotnar hækkar í sveitarfélögum og héruðum í landinu öllu en mikill hluti fjölgunarinnar á sér stað í borgum og þéttbýli. 

Viðnámsþol vinnumarkaðarins á undir högg að sækja vegna skorts á vinnuafli og hæfni

Norrænu vinnumarkaðirnir hafa reynst einstaklega viðnámsþolnir og verið fljótir að ná sér eftir heimsfaraldurinn. Atvinnustig er í mörgum atvinnugreinum orðið sambærilegt við það sem gerðist fyrir faraldurinn. Skortur á vinnuafli á mikilvægum sviðum svo sem heilbrigðiskerfinu, tækniiðnaði og grænum atvinnugreinum er þó enn áskorun. Í skýrslunni er varpað ljósi á tækifærin í markvissum aðgerðum á sviði menntunar og aðlögunar til þess að mæta skorti á hæfni og byggja upp þekkingu til framtíðar. Í Noregi er til dæmis mikil eftirspurn eftir vinnuafli innan grænna atvinnugreina sem undirstrikar mikilvægi þess að þróa sjálfbært vinnuafl.

Græn umskipti og mismunandi vaxtarleiðir á milli svæða

Á Norðurlöndum hafa efnahagsvísar áfram verið sterkir þrátt fyrir þau vandamál sem að hinu hnattræna hagkerfi hafa steðjað. Verg þjóðarframleiðsla á svæðinu er að meðaltali 80.848 bandaríkjadalir á hvern íbúa sem er miklum mun meira en meðaltalið í ESB sem er 57.098 bandaríkjadalir. Noregur gnæfir einnig yfir norrænu löndin með hæstu tölurnar. Frá 2021 til 2022 var vöxtur norrænu hagkerfanna tvöfalt hraðari en í ESB sem ber vott um viðnámsþol og aðlögunarhæfni. 

Hins vegar eykst tekjumunur innan og á milli svæða sem ógnar félagslegri samstöðu bæði svæðisbundið og á Norðurlöndum í heild. Nýjar tölur sýna að tekjumunur var mestur í Svíþjóð og á Grænlandi.

Grænu umskiptin geta stuðlað að vexti og ýtt undir ný verkefni sem loka gjánni á milli borga og landsbyggðar. Gert er ráð fyrir því að græna hagkerfið leiði til umtalsverðrar aukningar á atvinnuþáttöku, einkum á svæðum á landsbyggðinni sem rík eru af auðlindum. Þegar árið 2021 voru flokkuðust 25,2 prósent atvinnuþátttöku á Norðurlöndum undir græna starfsemi sem er langt yfir meðaltalinu innan OECD sem er 1,6 prósent. 

Norrænu löndin eru einnig komin fram úr almennum markmiðum ESB í loftslagsmálum og stefna á kolefnishlutleysi á milli 2035 og 2045. Skýrslan sýnir að Norðurlönd hafa stigið stórt skref í átt til þess að taka forystu í vinnunni að því að aðgreina hagvöxt og umhverfisáhrif. Á sama tíma er þörf á stöðugu og jöfnu aðgengi að jarðefnaeldsneytislausri orku og nauðsynlegri hæfni og vinnuafli til þess að halda í við grænu umskiptin.

Gustaf Norlén, aðalráðgjafi og kortagerðarmaður hjá Nordregio og ritstjóri skýrslunnar: „Grænu umskiptin eru einn af þeim risastóru þáttum sem hafa áhrif á vinnumarkaðinn. Við sjáum nú þegar breytt atvinnutækifæri, breytingar á hæfniþörf og skort á vinnuafli. Við þurfum að taka tillit til landfræðilegra þátta og huga að svæðisbundnum áhrifum umskiptanna.“

Það getur reynst erfitt að túlka flókin áhrif mismunandi þátta á svæðisbundna þróun. Í skýrslunni er að finna tækifærisvísi fyrir svæði sem gerir kleift að bera ólík svæði saman. Samkvæmt vísinum, sem hefur verið uppfærður, stendur Ósló best að vígi en þar á eftir koma Stokkhólmur og höfuðborgarsvæðin á Danmörku og Íslandi.

Í skýrslunni State of the Nordic Region kemur fram einstakt yfirlit og kortlagning yfir þróun mála á Norðurlöndum. Hún gefur okkur mikilvæga innsýn til að geta tekist á við áskoranir á svæðinu. 

Rolf Elmér, framkvæmdastjóri Nordregio sem stendur að baki skýrslunni

Um State of the Nordic Region

State of the Nordic Region er skýrsla sem unnin er og birt af Nordregio annað hvert ár. Í henni er staða norrænu landanna, svæða og sveitarfélaga skoðuð og nær hún yfir Danmörku, Finnland, Ísland, Noreg og Svíþjóð ásamt Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum. Síðasta skýrsla er sú tuttugasta og er hún byggð á uppfærslum í samræmi við nýjustu leitni og þróun. Skýrslan inniheldur einstakt safn talnagagna frá Norðurlöndum öllum og fjallar um málefni á borð við lýðfræði, vinnumarkað og efnahag. Svæðisbundinn tækifærisvísir í skýrslunni sýnir hvernig svæði á Norðurlöndum standa að vígi með hefðbundnum, samanburðarhæfum breytum.