Norrænt samstarf og Dansk Ungdoms Fællesråd kynna norrænan sjóð æskunnar um loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni

02.09.24 | Fréttir
nordisk pulje for biodiversitet
Ljósmyndari
Dansk Ungdoms Fællesråd
Hinum nýja norræna sjóði er ætlað að styrkja verkefni og aðgerðir í tengslum við loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni á vegum ungs fólks á Norðurlöndum. Sjóðurinn verður opnaður í dag.

Breið pólitísk sátt er á milli Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs um sjóðinn, sem nefnist Norrænn sjóður æskunnar um loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni, og var stofnaður í samstarfi við æskulýðsráð Danmerkur, Dansk Ungdoms Fællesråd (DUF).

Mikilvægt var að búa til umgjörð um sjóðinn í samvinnu við ungt fólk, fyrir ungt fólk og á forsendum þess.

„Það gleður okkur að kynna þennan sjóð í samstarfi við DUF. Það skiptir sköpum að styðja við aðkomu ungs fólks að loftslagsmálum og málum sem varða líffræðilega fjölbreytni. Sjóðurinn er dæmi um verkefni sem eykur þátttöku ungs fólks en á það er lögð mikil áhersla í norrænu samstarfi. Ég vil því þakka öllum sem að málinu komu,“ segir Dan Koivulaakso – deildarstjóri hagvaxtar- og loftlagsmálasviðs Norrænu ráðherranefndarinnar.

„Við í DUF erum ánægð með að taka þátt í því ásamt Norrænu ráðherranefndinni og Norðurlandaráði að stofna nýjan norrænan sjóð æskunnar um loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni. DUF hefur unnið að því undanfarin fimm ár að efla norrænt samstarf og samvinnu þar sem ungt fólk er í forystu. Með tilkomu þessa sjóðs gefst ungu fólki kleift að vinna beint að loftslagsmálum og málum tengdum líffræðilega fjölbreytni sem eru á meðal þeirra málefna sem skipta ungt fólk mestu máli. Um leið höldum við áfram því mikilvæga starfi að tengja ungt fólk á Norðurlöndum betur saman,“ segir Christine Ravn Lund, formaður DUF.

Breið pólitísk sátt

Norræna sjálfbærninefndin vann tillögu að sjóðnum ásamt Norðurlandaráði æskunnar og var hún samþykkt einróma á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn árið 2021.

„Eftir mikla aðkomu fulltrúa norrænna æskulýðssamtaka og - hreyfinga að vinnunni við stofnun sjóðsins er það mjög ánægjulegt að kynna opnun hans í dag. Yngri kynslóðirnar hafa fjölmargar góðar hugmyndir og tillögur að beinum aðgerðum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og með tilkomu þessa sjóðs munu enn fleiri af þeim verða að veruleika,“ segir Tove Elise Madland, formaður norrænu sjálfbærninefndarinnar.

Sjóðurinn mun veita fé til fjölbreyttra verkefna á borð við upplýsingaherferðir, náttúruferða, málþinga, hlutverkaleikja og sameiginlegrar stefnumótunar í loftslagsmálum.

Sjóðurinn verður opnaður í dag, 2. september 2024.

banner - biodiversitetspulje ungdom
Ljósmyndari
Dansk Ungdoms Fællesråd

Staðreyndir:

  • Sjóðurinn styður við verkefni og aðgerðir sem fara fram á Norðurlöndum og snúast um loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni og efla samstarf á milli ungs fólks á Norðurlöndum.
  • Ungt fólk á aldrinum 15–30 ára í öllum norrænu löndunum (Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Álandseyjum) getur sótt um.
  • Hægt er að sækja um styrk upp á 25.000–250.000 danskar krónur.
  • Sjóðurinn nemur 3.054.000 danskra króna sem úthlutað er í tveimur umsóknarlotum.
  • Sjóðurinn opnar 2. september 2024.
  • Fyrsti umsóknarfrestur: 27. október 2024.

Hér má lesa nánar um vinnu innan norræns samstarfs sem miðar að því að tryggja að raddir ungs fólks heyrist í alþjóðlegum viðræðum um líffræðilega fjölbreytni:

Lausnir

Norræna ráðherranefndin hefur unnið að ýmiss konar lausnum til þess að hvetja og leiðbeina ungu fólki til þátttöku.