Ólíkir leiðir að sjálfbæru samfélagi ― nýtt tölublað af „Green Growth the Nordic Way“

23.06.14 | Fréttir
Forætisráðherrar Norðurlanda funda að jafnaði tvisvar á ári. Á fundi sínum í maí sl. lögðu þeir áherslu á norrænt samstarf um lífhagkerfi sem ásamt grænum hagvexti vísar veginn að efnahagslífi framtíðarinnar. Í nýjasta tölublaði veftímaritsins „Green Growth the Nordic Way“ eru kannaðar mismunandi leiðir til að gera þetta nýja hagkerfi að veruleika. Sérstök áhersla er lögð á hringrásarhagkerfi og menningarmál.

Hugmyndin um nýtt hringrásarhagkerfi var umfjöllunarefnið á helsta viðburði Evrópusambandsins á sviði umhverfismála, Grænu vikunni svonefndu, sem haldin var í Brussel í byrjun júní.

Í annarri af tveimur megingreinunum í nýjasta tölublaði „Green Growth the Nordic Way“ er fjallað um starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði úrgangsstjórnunar og sjálfbærrar byggingarstarfsemi eins og hún var kynnt á Grænu vikunni. Í ýmsum nýjum skýrslum er jafnframt fjallað um tækifæri Norðurlanda á þessu sviði.

En sjálfbær þróun snýst ekki aðeins um hagkerfið og umhverfismál. Menning og menntun gegna einnig mikilvægu hlutverki við að koma á sjálfbæru samfélagi.

Seinni megingreinin í nýjasta tölublaðinu fjallar um ýmsa starfsemi á sviði menningarmála sem hefur það yfirlýsta markmið að stuðla að framgangi sjálfbærni. Heildræn hugsun er hluti af aðferðafræði Norðurlanda á þessu sviði og Norrænu ráðherranefndin mun halda áfram að kanna mismunandi leiðir að sjálfbærara samfélagi.

Tímaritið er hægt að lesa á vefslóðinni nordicway.org.

Nánari upplýsingar má nálgast á www.norden.org/greengrowth og www.norden.org/bioeconomy eða á facebook.