Ráðherrar málefna innflytjenda ræða flóttamannavandann

02.03.16 | Fréttir
Morgan Johansson, dómsmála- og innflytjendaráðherra í Svíþjóð, bauð norrænum starfssystkinum sínum til aukafundar til að ræða flóttamannavandann. Ráðherrarnir ræddu aukinn straum hælisleitenda, aðgerðir sem ráðgert er að grípa til og norrænt samstarf um sameiginleg viðfangsefni.

Fólksflutningavandi Evrópu er einnig vandi Norðurlanda.  Ráðherrar innflytjendamála á Norðurlöndum hittust í Stokkhólmi til að finna lausnir í sameiningu og til að ræða hvernig Norðurlönd geti haft gagn af því að standa saman í alþjóðaviðræðum.

„Besta ráðið til að taka á fólksflutningavandanum er að finna lausnir í sameiningu, hvort tveggja á Norðurlöndum og í Evrópu. Norðurlöndin upplifa öll sama vanda og Finnar telja mikilvægt að við tökum höndum saman, því við erum sannfærð um að norrænu löndin standi sterkar að vígi í viðræðum um samninga um endursendingu innflytjenda ef við stöndum saman,“ segir Petteri Orpo, innanríkisráðherra í Finnlandi.

„Allir þeir sem komið hafa til Norðurlanda geta ekki sest hér að, þannig að við erum að kanna möguleika á samhæfðum viðræðum við einstök lönd. Sem stendur snýst það aðallega um viðræður við Afganistan og Írak," segir Morgan Johansson.

Hann segir jafnframt að Svíar hafi ákveðið að framlengja landamæraeftirlit um þrjátíu daga, en hann neitar því að sameiginlegt norrænt landamæraeftirlit hafi verið til umræðu á fundinum.

Aðlögun innflytjenda verður nýtt áherslusvið í norrænu samstarfi

Norðurlönd hafa mismunandi stefnu í flóttamannamálum, en þau geta skipst á reynslu og lært hvert af öðru.

Finnar fara með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári. Árið 2017 verður komið að Norðmönnum. Børge Brende, utanríkisráðherra Noregs, hefur sagt eftirfarandi um áætlanir fyrir formennsku Norðmanna:

„Við eigum að nota norrænt samstarf og formennsku okkar til að efla aðlögunarhæfni Norðurlanda.“ Þetta snýst meðal annars um samfélagsþróun þar sem samstarf um aðlögun innflytjenda er að verða til sem nýtt áherslusvið.

Þegar hafa verið gerðar ákveðnar áætlanir um norrænt samstarf um aðlögun innflytjenda. Samstarfsráðherrarnir tóku ákvörðun um þær í febrúar á þessu ári.

Nánari upplýsingar hér:

 „Í dag höfum við átt góðan fund. Og samtölin við starfssystkini okkar á Norðurlöndum halda áfram,“ segir Sylvi Listhaug, innflytjenda- og aðlögunarráðherra í Noregi.

Norræni samráðshópurinn um málefni flóttamanna (NSHF)

Innflytjendur og aðlögun þeirra er pólitískt málefni sem nær yfir vítt svið og sem snertir marga ráðherra og mismunandi ráðuneyti. Ekki er til nein norræn ráðherranefnd um þessi málefni, en öll norrænu löndin hafa ráðherra sem sér um málefni innflytjenda og aðlögun þeirra.

Þessir ráðherrar koma saman í Norræna samráðshópnum um málefni flóttamanna (NSHF). Svíar fara með formennsku á þessu ári og voru þess vegna gestgjafar aukafundarins í Stokkhólmi.

Þátttakendur á fundinum 3. mars 2016

Svíþjóð: Morgan Johansson, dómsmála- og fólksflutningaráðherra

Finnland: Petteri Orpo innanríkisráðherra

Noregur: Sylvi Listhaug, innflytjenda- og aðlögunarráðherra

Danmörk: Inger Støjberg, útlendinga-, aðlögunar- og húsnæðismálaráðherra

Ísland: Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í innanríkisráðuneytinu