Á að hefja þríhliða viðræður Norðurlanda á ný?

29.10.14 | Fréttir
Per Rune Henriksen
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Jafnaðarmenn í Norðurlandaráði vilja að þríhliða viðræður vinnuveitenda, verkalýðsfélaga og ríkisstjórna á norrænum vettvangi hefjist á ný. Við verðum að verja norræna líkanið, segja tillöguflytjendurnir.

Þessa dagana stendur árlegt þing Norðurlandaráðs yfir í Stokkhólmi. Þemu fundarins eru vinnumarkaður, menntun og samþætting.

Norðurlandaráð er bara ein af mörgum formlegum og óformlegum birtingarmyndum norrænnar samvinnu. Fyrr á tímum funduðu einnig vinnuveitendur, verkalýðsfélög og ríkisstjórnir á norrænum vettvangi til að ræða þróun norræna líkansins.

Þá hefð vill Flokkahópur jafnaðarmanna í Norðurlandaráði endurlífga, ekki síst til að tryggja framtíð velferðarsamfélaga Norðurlanda.

– Norræna líkanið er þess vert að berjast fyrir. Það er undir þrýstingi af völdum alþjóðlegrar samkeppni, og þeim mun meiri ástæða er til að tryggja stöðu þess heima fyrir, segir Per Rune Henriksen, þingmaður norska Verkamannaflokksins,

Markmiðið er að vinnumarkaðurinn verði sterkur og stöðugur og að búinn verði til sameiginlegur vettvangur fyrir Norðurlönd í Evrópusambandinu. Nánar tiltekið vilja jafnaðarmenn að Norræna ráðherranefndin boði til þríhliða viðræðna á hverju ári til að ræða hvort tveggja mál sem eru ofarlega á baugi og þau sem horfa til lengri tíma.

Tillagan verður send til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd Norðurlandaráðs. Verkalýðsfélög á Norðurlöndum hafa með sér samtök, Norræna verkalýðssambandið (NFS), en atvinnuveitendur hafa ekki neinn samsvarandi vettvang.